„Þess á milli skríður seðlabankastjóri í híði sitt“

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar-stéttarfélags fer hörðum orðum um afstöðu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til kjaramála almenns launafólks í viðtali við héraðsfréttablaðið Skarp á Húsavík, sem kom út í gær. Seðlabankastjóri hefur tjáð sig um komandi kjaraviðræður, hann segir nauðsynlegt að semja um „hóflegar“ kjarabætur á almennum vinnumarkaði. Í sama streng hafa Samtök atvinnulífsins tekið.

„Þetta er bara gömul tugga. Seðlabankastjórinn virðist vera eins og björninn, hann heldur sér vakandi þegar verkalýðshreyfingin er að móta sína kröfugerð fyrir láglaunafólkið í landinu. Þess á milli skríður bankastjórinn í híði sitt og sefur vært, svo sem þegar kennarar, flugmenn, og læknar hafa verið að semja um sín kjör. Staðreyndin er sú að millistjórnendur og stjórnendur hafa hækkað gríðarlega í launum og stjórna í raun og veru launaskriðinu,“ segir Aðalsteinn í viðtali við Skarp.

Hann álítur krafan um krónutöluhækkanir sé skýr í komandi kjaraviðræðum, varla verði hlustað á tal eða tillögur um prósentuhækkanir. „Krónutöluhækkun kemur þeim lægst launuðu best, það er morgunljóst. Þess vegna er þessi krafa í mínum huga skýr. Það er bara þannig.“

Harður kjaravetur í farvatninu

Bæði vinnuveitendur og verkalýðsleiðtogar virðast vera sammála um að erfiðar kjaraviðræður séu í farvatninu. Formaður Framsýnar en engin undantekning.

„ Jú, það er harður vetur framundan og ég bið almennt launafólk um að búa sig undir átök. Við getum ekki enn eina ferðina setið eftir í launamálum og horft á nánast allar aðrar stéttir hækka miklu meira.“

Hvers konar aðgerðir ertu þá að tala um ?

„ Það er hægt að fara ýmsar leiðir, ég er ekki endilega að tala um allsherjarverkfall. Verkalýðhreyfingin getur vel sýnt klærnar með áberandi og afgerandi hætti, ef henni er misboðið. Auðvitað vona ég að ekki þurfi að grípa til einhverra aðgerða, en eins og landið liggur núna, stefnir augljóslega í harðar kjaraviðræður. Við munum aldrei skrifa upp á þriggja til fjögurra prósenta launahækkun. Aðrir launahópar hafa samið um tveggja stafa hækkanir. Síðan tala vinnuveitendur um að almennir launþegar eigi að fá 3 % til 4 %. Þess vegna tala ég um harðan vetur og að jafnvel þurfi að grípa til róttækra aðgerða,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar- stéttarfélags.