Framsýn – stéttarfélag hélt áfram fundarröð sinni um samfélagsmál, með opnum fundi um málefni og framtíð sorpmála í Norðurþingi. Fundurinn var haldinn laugardaginn 6. desember í fundarsal stéttarfélaganna. Aðalgestur fundarins var Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings.Kristján fór stuttlega yfir sögu og rekstur Sorpsamlagsins, ákvarðanir hafa verið teknar síðustu mánuði á vettvangi Sorpsamlags Þingeyinga og Norðurþings og hvað sé framundan. Aðstæður í samfélaginu, lög og reglur og stefna stjórnvalda hafa orðið til þess að ekki er raunhæft að reka sorpbrennslu, því er stefnan nú að fara í flokkun sorps, endurnýtingu eins og hægt er, moltun og urðun. Samstarfi sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum hefur verið slitið og er Norðurþing nú eitt sveitarfélaga eigandi og rekstraraðili Sorpsamlags Þingeyinga.
Á vettvangi Norðurþings er nú unnið að því að fara í útboð á sorphirðu heimila og rekstur flokkunarstöðvar sorps, þar sem áhersla verður lögð á endurnýtingu, moltugerð og urðun. Með þessu verður kappkostað að minnka magn þess sorps sem verður urðað. Þannig mun Norðurþing fara í fótspor þeirra sveitarfélaga sem bestum árangri hafa náð í þessum málaflokki fyrir sem minnst útgjöld. Væntanlega verður fyrir valinu sorpflokkunarkerfi og sorphirða sem byggir á þriggja íláta kerfi. Þá er líklegast að að sorp verði urðað áfram við Blönduós eða á nýjum urðunarstað við Egilsstaði. Norðurþing stefnir að því að ný tilhögun flokkunar og hirðingu sorps taki gildi 1. júní 2015. Mikilvægur hluti í ferlinu er góður undirbúningur og samvinna við íbúa, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu.
Á fundinum urðu góðar umræður og svöruðu Kristján og Hafsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpsamlags Þingeyinga spurningum fundarmanna.
Í umræðunum kom m.a. fram að fullreynt er með brennslu á sorpi, m.a. hefur ríkið ekki sinnt málaflokknum áhuga. Það reikningsdæmi er ekki að ganga upp nema með t.d. aðkomu ríkisins. Ekki eru í hendi urðunarstaðir í Þingeyjarsýslum, þrátt fyrir nokkra leit á s.l. árum. Lítill urðunarstaður er við Kópasker, sem urðar einungis sorp af því svæði. Fundarmenn ræddu um mögulega aðila til að taka að sér verkefnið. Þrjú stór fyrirtæki hafa sýnt verkefninu áhuga og einnig voru ræddir þeir kostir að Norðurþing sinnti þessum þætti sjálft eða fyrirtæki á vegum heimaaðila eða núverandi starfsmanna Sorpsamlags Þingeyinga. Fram kom gagnrýni á ferli verkefnisins m.a á þá óvissu sem starfsmenn Sorpsamlagsins hafa búið við. Fundarmenn hvetja til þess að verkefnið fái vandaða og opna umæðu á næstu mánuðum á vettvangi Norðurþings.
Þessir heiðursmenn tóku þátt í fundinum en þeir hafa allir látið sig sorpmál varða í Norðurþingi og reyndar í Þingeyjarsýslum líka.
Kristján sveitarstjóri fór vel yfir málin og svaraði fyrirspurnum fundarmanna.
Fundarmenn voru virkir á fundinum. Hér er Björn Hólmgeirsson að varpa fram fyrirspurn.
Sigmundur og Steina hugsi og Rúnar Óskarsson kemur sínum skoðunum á framfæri við fundinn.
Þórhildur skrifar niður gagnlegar upplýsingar á fundinum. Fundir Framsýnar um samfélagsmál hafa komið vel út. Fleiri fundir eru hugsaðir eftir áramótin. Framsýn leitar eftir tillögum um fundarefni en þegar hafa komið fram nokkrar hugmyndir sem unnið verður með eftir áramótin.