Framsýn hefur undanfarnar vikur barist fyrir því að Vinnumálastofnun leggi ekki niður starfsemi stofnunarinnar á Húsavík 1. desember nk. Því miður virðist það vera ásetningur hjá stofnuninni að leggja niður starfsemina á Húsavík þrátt fyrir loforð núverandi stjórnavalda um að viðhalda opinberri þjónustu á landsbyggðinni og efla hana enn frekar. Framsýn mun í dag krefjast þess að stofnunin gefi upp hvað þeir ætli að gera. Þá má geta þess að Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra ásamt Vinnumarkaðsráði Austurlands taka undir skoðanir Framsýnar og hafa ályktað um málið og krafist þess að þjónustunni verði viðhaldið á Húsavík. Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra er jafnframt tilbúið að leggja fram fjármagn til rekstrar skrifstofunnar á Húsavík næstu mánuðina. Eftir því sem best er vitað hefur Vinnumálastofnun engan áhuga fyrir því að nýta sér það, starfið á Húsavík skal lagt niður með stuðningi stjórnarþingmanna sem höfðu ekki fyrir því að svara fyrirspurn Framsýnar um skoðun þeirra á málinu sem telur um 2400 félagsmenn eða helming íbúa í Þingeyjarsýslum. Virðingin er ekki meiri en þetta. Hafið skömm fyrir.
Ályktun vinnumarkaðsráðanna:
„Sameiginlegur fundur Vinnumarkaðsráðanna á Norðurlandi eystra og Austurlandi hvetja til þess að þjónustuskrifstofa Vinnumálastofnunar á Húsavík verði ekki lokað 1. desember. Skrifstofan gegnir mikilvægu þjónustuhlutverki gagnvart atvinnuleitendum, atvinnu-rekendum og einstaklingum sem þurfa á þjónustu Fæðingarorlofssjóðs að halda.“
Bókun Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra:
„Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra ákveður að leggja allt að 250 þúsund krónur í að framlengja starf fulltrúa Vinnumálastofnunar á Húsavík út árið 2014. Ráðið óskar jafnframt eftir því við yfirstjórn Vinnumálastofnunar að starfsmaðurinn fái tímabundið framlengingu á ráðningu til 31. desember 2014.“
Í dag verður óskað endanlega eftir því hvort Vinnumálastofnun ætli að loka þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík á mánudaginn. Fari svo er um sorgardag að ræða.