Þingmenn svara

Framsýn hefur skorað á þingmenn kjördæmisins að gefa upp afstöðu þeirra til þess að Vinnumálastofnun loki þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík eftir mánuð, það er 1. desember. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir  skrifar til félagsins:

“Ég tel það mikil mistök að leggja þetta starfshlutfall hjá Vinnumálastofnun niður á Húsavík og dreg í efa að þessi fjárhæð sem á að sparast með því nái fram að ganga. Ég hef margoft, bæði í fjárlaganefnd og í ræðustól Alþingis bent á að þessi tilhneiging að leggja niður “útibússtörf” s.s. eins og hjá Vinnumálastofnun, Umboðsmanni skuldara og fleirum séu til þess fallin að draga úr fjölbreytileika starfa á landsbyggðunum enda hverfa viðfangsefnin ekki. Þjónustunni er þá sinnt frá höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi veseni og erfiðleikum fyrir þá sem hana þurfa að sækja.

Ég mun halda áfram að gera mitt til þess að sporna við svona arfavitlausri stjórnsýslu.”

Kveðja góð,

Bjarkey