Fyrir réttum 30 árum síðan lauk allsherjarverkfalli BSRB og af því tilefni verður sýning á ljósmyndum sem Helgi Jóhann Hauksson tók í verkfallinu opnuð kl. 14 á morgun, fimmtudaginn 30. október, á 1.hæð í húsi BSRB að Grettisgötu 89.
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB mun opna sýninguna formlega og þá mun Ögmundur Jónasson, fyrrverandi formaður BSRB, flytja stutt erindi um atburðina. Helgi Jóhann ljósmyndari mun einnig segja frá myndum sínum en alls tók hann um 1500 ljósmyndir á meðan verkfallinu stóð.
Filmurnar voru glataðar í fjölda ára en komu í leitirnar ekki alls fyrir löngu og hefur Helgi Jóhann nú lagfært þær og komið á stafrænt form. Myndirnar eru merkileg heimild um þessa miklu umbrota tíma í Íslandssögunni. Myndrænar heimildir um þessa umbrotatíma eru af skornum skammti vegna því á þessum tíma voru bókagerðarmenn einnig í verkfalli og því komu engin dagblöð út. Eini ljósvakamiðillinn sem þá starfaði var Ríkisútvarpið og þar sem starfsmenn þess voru félagsmenn BSRB lögðu þeir einnig niður störf.
Allsherjarverkfall BSRB stóð hófst þann 4. október 1984 og stóð í 27 daga. Það hafði gríðarleg áhrif á þjóðfélagið. Skólahald lá niðri, leikskólar voru lokaðir, strætisvagnar gengu ekki og útsendingar sjónvarpsins stöðvuðust svo dæmi sé tekið. Verkfallsverðir stóðu vaktina við hafnir landsins og komu í veg fyrir affermingu skipa. Fyrir vikið fór vöruskortur að gera vart við sig þegar leið á verkfallið. Samkomulag náðist á milli viðsemjenda þann 29. október og um leið lauk verkfallinu.
Sýningin sem opnuð verður á morgun mun innihalda hluta af þeim myndum sem Helgi Jóhann tók á meðan verkfallinu stóð. Einnig verður hægt að skoða gömul BSRB tíðindi sem dreift var daglega í 30 þúsund eintökum á meðan verkfallinu stóð. Dagleg útgáfa þess kom mikilvægum upplýsingum áleiðis til félagsmanna sem og annarra þar sem allar aðrar boðleiðir voru lokaðar.
Líkt og áður sagði verður sýningin á 1. hæð BSRB hússins að Grettisgötu 89 og mun hún vera opin alla virka daga frá kl. 9-17 fram að áramótum.