Verkalýðshreyfingin mun beita „vöðvaafli“ verði misskipting ráðandi

Forseti ASÍ, Gylfi  Arnbjörnsson, er harðorður í viðtali á www.visi.is um komandi kjarasamninga.  Þar talar hann um að nota vöðvaaflið takist ekki að semja um mannsæmandi laun fyrir félagsmenn Alþýðusambandsins en síðustu kjarasamningar voru virkilega vandræðalegir fyrir sambandið. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, býður forsetann velkomin í liðið sem hefur haft þetta markmið að leiðarljósi í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, það er að semja um mannsæmandi laun fyrir verkafólk. Reyndar segir Aðalsteinn að hann ásamt formanni Verkalýðsfélagsins á Akranesi hafi verið kallaðir lýðskrumarar fyrir að vera merkisberar þessarar stefnu. Full ástæða sé að fagna nýjum liðsmönnum og hvetur hann verkafólk til að fylgjast með umræðunni og hvort menn standi við stóru orðin í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Hér má sjá viðtalið við forseta ASÍ sem er að finna inn á www.visi.is:
Viðtalið við forseta ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að ASÍ muni ekki semja um hóflegar launahækkanir í kjaraviðræðum haustsins og beita afli verkalýðshreyfingarinnar af fullum þunga ef misskipting verði ráðandi í atvinnulífinu. Vísar hann þar til launahækkana stjórnenda.
Forystumenn í verkalýðshreyfingunni hafa gagnrýnt launahækkanir stjórnenda í atvinnulífinu sem komu í jós þegar staðgreiðsla opinberra gjalda lá fyrir og útreikningar byggðir á henni voru birtir í fjölmiðlum.
Í tekjublaði Frjálsrar verslunar mátti lesa yfirlit yfir launahækkanir stjórnenda fyrirtækja sem í sumum tilvikum námu 600 þúsund krónum á mánuði. Hefur þetta valdið talsverðri óánægju í verkalýðshreyfingunni ekki síst fyrir þá staðreynd að almennir launþegar þurftu að semja um 2,8 prósenta almenna launahækkun í síðustu tímabundnu samningum aðila vinnumarkaðarins til tólf mánaða. Sú hækkun nam 9.750 krónum mánaðarlega á almennan taxta. Var vísað til þess að semja þyrfti um hóflegar launahækkanir til að sporna gegn verðbólgu.
Tvöfeldni sem gengur ekki upp
„Á sama tíma og við erum að ræða við forystusveit atvinnurekenda á árinu 2013 bæði frá því í janúar þegar við vorum að endurskoða kjarasamninga og ákváðum að segja þeim ekki upp og síðan auðvitað í viðræðunum sjálfum haustið 2013 þá kemur í ljós að stjórnendur voru á sama tíma að semja við sínar stjórnir um hækkanir sem voru margfalt meiri en það sem þeir voru að kynna fyrir okkur. Það auðvitað bara gengur ekki upp. Þetta er tvöfeldni sem getur ekki verið til viðmiðunar,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.
Munið þið fara fram á sambærilegar hækkanir í kjaraviðræðum haustsins? „Mér þykir ekki ólíklegt að bæði félagsmenn og forystan leggi upp með það. Það ætti kannski að vera auðvelt að sækja það, að nota þeirra rök. Þeir hljóta að vera sammála eigin rökum.“
Virða að vettugi jafnræði
Gylfi segir að markmið síðustu kjarasamninga hafi að einhverju leyti náðst því tekist hafi að ná tökum á verðbólgunni og genginu. Þegar hóflegar launahækkanir og stöðugt gengi fari saman sé verðbólga lág og kaupmáttur vaxi. Slík stefna byggist hins vegar á því að það sé eitthvað jafnræði á vinnumarkaði milli stjórnenda og starfsmanna. Það hafi ekki tekist.
„Þetta hefur í för með sér að í þessari leikjafræði sem er á milli launamanna og stjórnenda fyrirtækja, fjármagns, að ef það er ekki hægt að hafa þokkalega samstöðu um að það sem sé til skiptanna sé skipt réttlátt þá verðum við að nota vöðvaaflið til að taka það sem við teljum okkar félagsmönnum beri.“