Í nóvember 2013 gerði Framsýn samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem gilti til 1. maí 2014. Samkomulagið hefur nú verið endurnýjað og framlengt til 1. maí 2015.
Samkomulagið byggir m.a. á því að Framsýn gerir magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Þannig geta félagsmenn ferðast milli Húsavíkur og Reykjavíkur eða frá Reykjavík til Húsavíkur fyrir aðeins kr. 7.500,- aðra leið, það er í einkaerindum. Miðarnir hækka í kr. 9.200 í haust. Flugmiðarnarnir eru aðeins ætlaðir félagsmönnum og geta þeir einir ferðast á þessum kjörum í einkaerindum.
Enn og aftur brýtur Framsýn ákveðið blað í starfsemi stéttarfélaga, ekki er vitað til þess að stéttarfélag hafi áður samið við flugfélag um viðlíka kjör fyrir félagsmenn. Nokkur önnur stéttarfélög fylgdu í kjölfarið og gerðu sambærilega samninga við flugfélagið eins og Framsýn.
Hugsanlega er þetta ein besta ef ekki besta kjarabótin sem Framsýn hefur samið um fyrir félagsmenn þegar horft er til þess að félagið hefur verslað 2.340 flugmiða fyrir kr. 17.550.000. Varlega áætlað hafa félagsmenn sparað sér um 20 milljónir við kaup á flugmiðum í gegnum Framsýn.
Komið hefur fram í fjölmiðlum að farþegum sem fara um Húsavíkurflugvöll hefur fjölgað jafnt og þétt frá því að flugið hófst á ný, það ber ekki síst að þakka samkomulagi sem Framsýn gerði við Flugfélagið Erni um sérstök kjör fyrir félagsmenn. Önnur aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga jafnframt aðild að samkomulaginu í gegnum Framsýn.