Á aðalfundi Framsýnar í gær urðu miklar umræður um atvinnumál enda hefur svæðið orðið fyrir miklum áföllum undanfarið, ekki síst vegna ákvörðunar Vísis hf. að loka starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík. Jafnframt höfðu fundarmenn áhyggjur af sameiningu sýslumanns- og lögreglustjóraumdæma sem og heilbrigðisstofnana. Fundarmenn voru sammála um að það væri skref í öfuga átt og kæmi afar illa við íbúa í Þingeyjarsýslum. Hér má skoða álykanirnar sem voru samþykktar samhljóða á kröftugum aðalfundi Framsýnar:
Ályktun
um sameiningu ríkisstofnana
„Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga, haldinn á Húsavík 15. maí 2014, lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun í byggða- og atvinnumálum í Þingeyjarsýslum.
Alþingi hefur nýlega samþykkt sameiningu sýslumanns- og lögreglustjóraumdæmanna á norðausturlandi. Jafnframt er til skoðunar að sameina heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi. Fundurinn óttast að störfum í opinberri þjónustu fækki enn frekar í Þingeyjarsýslum. Samþjöppun á opinberri þjónustu hefur gjarnan þær afleiðingar að þjónustan til byggðalaganna skerðist og kostnaður íbúa svæðisins eykst við að sækja þjónustuna um langan veg.
Fundurinn mótmælir harðlega þessum fyrirætlunum en hvetur jafnframt Alþingi, Byggðastofnun og sveitarstjórnarmenn til að standa vörð um þjónustuna og opinberu störfin í Þingeyjarsýslum.
Mikilvægt er að samfélagsleg áhrif sameininga opinberra stofnanna á vinnumarkað, búsetujafnrétti og þjónustu liggi fyrir áður en af þeim verður. Fundurinn hefur áhyggjur af því að fyrirliggjandi ráðstöfun hafi frekari kostnað í för með sér fyrir ríki, dragi úr þjónustu við íbúana, auki tilkostnað þeirra við að sækja lögbundna grunnþjónustu og hafi neikvæð óafturkræf áhrif á vinnumarkað og samfélag í Þingeyjarsýslum.“
Ljóst er að margir hafa áhyggjur af sameiningum ríkisstofnana á svæðinu. Framsýn ályktaði um málið í gær.
Ályktun
Um starfsemi Vísis hf. á Húsavík
„Aðalfundur Framsýnar, stéttarfélags Þingeyinga fordæmir harðlega ákvörðun Vísis hf. um að loka starfstöð fyrirtækisins á Húsavík 1. maí 2014 en við það misstu um 60 starfsmenn vinnuna. Loforð og ráðagerðir Vísis hf. þegar fyrirtækið eignaðist Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf. um að efla starfsemina á Húsavík til muna eru greinilega orðin tóm.
Þá er forkastanlegt að fyrirtækið ætli sér að komast hjá því að greiða starfsmönnum kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest með því að beina þeim á atvinnuleysisbætur og ætla þar með ríkissjóði að standa við skuldbindingar fyrirtækisins. Í ljósi þessa hefur Framsýn falið lögfræðingum félagsins að stefna fyrirtækinu Vísi hf. fyrir félagsdóm.
Vegna þessarar tilraunar til misnotkunar á rétti fyrirtækja til að senda fólk heim í hráefnisskorti telur Framsýn einboðið að Alþingi breyti lögum um rétt fiskvinnslufyrirtækja til að fá endurgreiðslur frá Atvinnutryggingasjóði í hráefnisskorti vegna hráefnislausra daga. Það verður aldrei sátt um að fyrirtæki í fiskvinnslu reyni að leika á kerfið með þessum hætti.“
Töluverðar umræður urðu um lokun starfsstöðvar Vísis á Húsavík og er reiði meðal fólks með framgöngu fyrirtækisins. Eins og lesa má hér, var samþykkt ályktun um málið á aðalfundinum.