Neysluviðmið – gagnlegt upplýsingatæki

Í vikunni hélt Framsýn – stéttarfélag opinn kynningar- og umræðufund um neysluviðmið. Framsögu hafði Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í Velferðarráðuneytinu.  Í máli hennar kom fram að starf stjórnvalda við gerð neysluviðmiða hófst á árinu 2010 með stofnun stýrihóps. Árið 2011 var kynnt ítarleg skýrsla um málið og virkjuð aðgengileg reiknivél á vef ráðuneytisins. Frá þeim tíma hefur starfið þróast og mun halda áfram á vettvangi Velferðarráðuneytisins, í samvinnu við margar aðrar stofnanir og hagsmunaaðila.

Til að byrja með voru útgjaldaflokkar neysluviðmiðanna 5 með 15 undirflokkum. Eftir að fyrstu neysluviðmiðin voru gefin út náðist ágæt samstaða um niðurstöður og birtingu allra flokka nema húsnæðiskostnaðar (erfitt að gefa út húsnæðiskostnað, hann mjög mismundandi). Vegna þessarar gagnrýni og með hliðsjón af reynslu í nágrannalöndunum var ákveðið að taka húsnæðiskostnaðinn út. Því er viðmiðið nú samsett af 4 útgjaldaflokkum og 12 undirflokkum. Flokkarnir um neysluvörur, þjónustu og tómstundir byggjast á upplýsingum og tölum úr neyslukönnun Hagstofunnar, en tölur úr flokknum samgöngur eru útreiknaðar í samstarfi aðila.

Neysluviðmiðunum er ætlað að endurspegla dæmigerð útgjöld íslenskra heimila. Í tölunum er DÆMIGERT neysluviðmið  miðað við miðgildi útgjalda hjá fjölskyldum í hverjum flokki fyrir sig. Þannig er helmingur heimilanna er með lægri útgjöld og hinn helmingur heimilanna með hærri útgjöld. GRUNNVIÐMIÐ í neysluviðmiðinu gefur vísbendingar um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér. Markmið með þessari vinnu eru að þróa nothæft tæki til að sjá neysluviðmið hjá íslenskum heimilum, sjá breytingar á neyslu m.v. fjölskyldugerðir og búsetu og opinbert viðurkennt tæki til notkunar í umræðu og áætlunargerð hjá hinu opinbera, sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum, hagsmunaaðilum og ekki síst fyrir einstaklingana og fjölskyldurnar sjálfar í þeirra rekstri og áætlanagerð. 

Á vef Velferðarráðuneytisins (www.vel.is) er nú að finna reiknivél (https://www.velferdarraduneyti.is/neysluvidmid/) þar sem hægt er setja inn forsendur, m.a. fjölskyldustærð, búsetu og tegund neysluviðmiða.

Fundarmenn lýstu almennt ánægju sinni með þessa vinnu Velferðarráðuneytisins. Fáir töldu sig þó hafa þær tekjur sem þyrfti til að framfleyta fjölskyldu með Dæmigerða neysluþörf. Í umræðunni bar m.a. á góma að viðmiðin endurspegluðu miðgildiskostnað en raunveruleikinn hjá hverri fjölskyldu fyrir sig væri annar m.a. hvað varðar kostnað við húsnæði, ferðakostnað, lyfja og heilbrigðiskostnað. Fundurinn telur forsendur til að skoða möguleika til að nýta þessa vinnu í auknu mæli í ýmsa kjaratengda vinnu, s.s. kjarasamningsgerð.

Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í Velferðarráðuneytinu flutti fróðlegt erindi á opnum fundi Framsýnar um neysluviðmið. Ekki er vitað til þess að stéttarfélög hafi áður staðið fyrir sambærilegum fundi um neysluviðmið.