Byggðastofnun vill aukinn réttindi launafólks á dreifðum svæðum

Í nýlegu erindi forstjóra Byggðastofnunar til Starfsgreinasambands Íslands og annarra tengdra aðila er kynnt að stofnunin hafi komið að nokkrum byggðaþróunarverkefnum, m.a. á Raufarhöfn. Þar hefur stofnunin nálgast verkefnið þannig að heimmenn sjálfir hafi forystu í umræðunni. Kallað hefur verið eftir lýsingu þeirra á aðstæðum á svæðunum, bæði til að meta kosti viðkomandi svæðis en ekki síður til að fá lýsingu á neikvæðum áhrifum á búsetu á viðkomandi svæði.

Í þessu sambandi hafa heimamenn m.a. nefnt að ýmiskonar stoðþjónusta hafi dregist saman. Á það við þjónustu stofnana ríkis og sveitarfélaga vegna skertra fjárframlaga og einkaðila. Þjónustan minnkar og störfum og atvinnutækifærum á viðkomandi svæði fækkar einnig. Þjónusta sem varðar börn og velferðar- og heilbrigðisþjónusta virðist stór áhrifaþáttur. Konur horfa í meira mæli til þessara þátta en karlar.

Byggðastofnun hefur hlustað á þessar raddir og óskað eftir að gætt sé sérstaklega að þessum aðstæðum. Í því sambandi óskar stofnunin eftir að aðilar vinnumarkaðsins skoði með þeim hvaða aðgerðir gætu stuðlað að því að lágmarka þennan veikleika byggðanna. Lagt er m.a. til að skoðað verði í kjarasamningum að veita ákveðin réttindi vegna þrengri aðstæðna til að fá nauðsynlega stoðþjónustu, t.d. þannig að hluti veikindadaga verði veittur til að ferðast eftir þessari grunnþjónustu. Á móti mætti hugsa sér að veita laungreiðendum á dreifbýlli svæðum svigrúm með lækkun tryggingagjalds.

Framsýn – stéttarfélag hefur fengið framangreint erindi Byggðastofnunar og lýsir yfir fullum áhuga á samvinnu við stofnunina og aðila vinnumarkaðarins að skoða þá þætti sem gætu styrkt búsetuskilyrði á dreifðari svæðum. 

  

Á fundi sem samninganefnd Framsýnar átti með samninganefnd Launanefndar sveitarfélaga vegna félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum lagði félagið fram greinagerð Byggðastofnunar sem fylgiskjal með kröfugerð félagsins. Byggðastofnun vill aukinn réttindi launafólks á dreifðum svæðum, -svigrúm má skapa t.d. með lægra tryggingargjaldi segir Byggðastofnun.