Vita Samtök atvinnulífsins af þessu?

Í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins telja ekki svigrúm nema fyrir 2,8% launahækkun hjá alþýðu landsins er áhugavert að rýna í frétt á mbl.is í dag. Þar kemur fram að laun stjórnenda hjá skráðum félögum hér á landi hækkuðu í mörgum tilfellum vel umfram launavísitölu í fyrra. Þetta má sjá þegar rýnt er í ársreikninga þeirra fyrirtækja sem hafa gert árið upp og sent ársreikning til Kauphallarinnar. Laun forstjóra Regins og N1 hækkuðu til dæmis um rúmlega 26% milli ára og hækkuðu laun forstjóra TM um 16%. Laun lykilstjórnenda voru einnig á nokkru skriði hjá N1, Eimskip, Regin og Fjarskiptum, meðan þau héldu ekki í við vísitölu hjá TM og Össuri og lækkuðu hjá VÍS. Ekki eru ennþá öll fyrirtækin í Kauphöllinni búin að gera upp árið, en Hagar, Icelandair, Marel og Nýherji eiga öll eftir að senda inn reikninga.

Laun forstjóra Össurar, Jóns Sigurðssonar, standa nokkuð upp úr, en þau voru í fyrra um 102 milljónir yfir árið, eða 8,5 milljónir á mánuði. Miðað er við gengið 114 krónur á hvern dollar, en Össur gerir upp í Bandaríkjadölum. Er Jón eini forstjórinn sem horfði upp á lækkun launa milli ára, en hún nam um 3%. Meðaltal annarra forstjóra er um 40 milljónir á ári, eða 3,3 milljónir á mánuði. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, var með tæplega 52 milljónir í árstekjur, en það jafngildir 4,3 milljónum á mánuði. Í fyrra voru laun hans 19,4 milljónir, en þess ber að geta að hann hóf ekki störf fyrr en um miðjan júlímánuð. Uppreiknuð heildarlaun hans fyrir það ár eru því nær því að vera 40,9 milljónir. Hækkunin nemur því um 26,4%, en til samanburðar má geta þess að vísitala launa hækkaði um 6% á síðasta ári. Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, var með 42,4  milljónir í árstekjur, en tekið er fram í ársreikningi að þar af sé 4,6 milljóna álagsgreiðsla vegna skráningar fyrirtækisins á árinu. Ef álagsgreiðslan er ekki reiknuð með eru laun hennar næstum óbreytt milli ára. Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, var með 41,5 milljónir á síðasta ári, en það er hækkun um 16% milli ára og Ómar Svavarsson, forstjóri Fjarskipta, hækkaði um 9% á árinu og fékk 40 milljónir í árstekjur. Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, var aftur á móti með 23,1 milljón í árslaun, eða 1,9 milljónir á mánuði. Hækkuðu laun hans um 26,2% milli ára. Laun Gylfa Sigfússonar, forstjóra Eimskips, hækkuðu um 17% milli ára, en hann var með 90,5 milljónir í laun á síðasta ári, ef miðað er við að gengi evru sé 155 krónur. 

Laun annarra lykilstjórnenda og stjórnarmanna voru á minna skriði á síðasta ári, en hjá N1 hækkuðu þau mest, eða um 47,2%. Þó ber að geta þess að ef ekki væri fyrir laun nýs yfirmanns fyrirtækjasviðs er hækkunin um 10%. Hjá Fjarskiptum hækkuðu laun annarra lykilstjórnenda um 15% og hjá Regin um 10,7%. Hjá Össuri og TM var hækkunin aftur á móti um 3,6% og hjá VÍS drógust þau saman um 2% milli ára. Lykilstjórnendur og stjórnarmenn hjá Eimskip hækkuðu um 2% á síðasta ári.

Laun Eggert Benedikts Guðmundssonar, forstjóra N1 hækkuðu um 26,4% milli ára. Almennir starfsmenn hjá N1 fá væntanlega um 2,8 til 5% launahækkun verði sáttatillaga ríkissáttasemjara samþykkt sem er í atkvæðagreiðslu um þessar mundir. Því miður siglum við áfram í sama ruglinu m.v. þessa frétt.

 Forstjórar og millistjórnendur hækka og hækka meðan verkalýðnum er skammtað úr lófa.