Mælist réttlætið í prósentum?

Það er eins og við Íslendingar grípum ævinlega til þess ráðs að tala um prósentur þegar við viljum vera trúverðugir.  Ekki veit ég almennilega af hverju. Hér einu sinni dugði að setja mál sitt fram með greinargóðum hætti, á kjarngóðri íslensku. Nú dugir það ekki lengur.  Getir þú ekki stutt mál þitt með prósentutölum af einhverju tagi er eins og enginn maður hafi áhuga fyrir því sem þú segir.

Það er eins og þjóðin hafi gjörsamlega bitið sig fasta í þennan bölvaðan prósentureikning, sem eftir að vasareiknarnir komu til sögunnar er síst merkilegri reikningsaðferð en margar aðrar.  En það er svo sem ekki ætlunin að gera sérstaklega lítið úr þessari reikningsaðferð enda er hún góðra gjalda verð, þar sem hún á við.  – Hún á hins vegar hreint ekki alls staðar við og hún segir okkur líka langt í frá allan sannleika. –  Það er nú meinið.

Í umræðu síðustu daga um launahækkanir, skattalækkanir og kjarabætur af ýmsu tagi, hafa prósentutölur verið afar áberandi.  Þar eru prósenturnar dregnar fram sem óyggjandi sönnun þess að öllu réttlæti sé fullnægt. –  Þetta er því miður misnotkun á þessari annars ágætu reikningsaðferð.  Það felst nefnilega ekkert réttlæti í því að allir fái sömu kjarabætur, – í prósentum talið.  Í því getur hins vegar falist argasta óréttlæti.  Og þannig háttar nú því miður til hér á Íslandi, jafnræði í prósentum talið dregur æ meira sundur með hinum ýmsu þjóðfélagshópum, svo undarlega sem það nú kann að hljóma. 

Eins og flestir málsmetandi menn vita þýðir hið útlenda orð prósent einfaldlega hlutfall af hundraði, en hefur í seinni tíð verið minna notað af þjóðinni í þeim búningi, – þykir sennilega ekki hljóma eins sannfærandi þannig (gegnsærra).  En orðið prósent táknar sem sagt hlutfallstölu af einhverri tiltekinni stærð.  Í því felst þess vegna að 10% af 100 eru aðeins 10 en 10% af 1000 eru 100.  Þarna munar umtalsverðu, ekki síst ef um peninga er að ræða.  –  Og þannig er það jú oft, prósentuumræðan er nátengd umræðu um peninga, laun, skatta og svoleiðis nokkuð. 

Ellilífeyrisþegi sem fær kr 90.000- á mánuði og fær launahækkun um 10% (sem hann hefur reyndar aldrei fengið) fær kr 99.000- eftir hækkun.  Hann fær kr 9000- í launahækkun.  Kennari, sem fær kr 180.000- á mánuði og fær sömu hækkun, hækkar um 18.000- á mánuði, og fær kr 198.000- eftir hækkun.  Alþingismaður sem fær kr 500.000- á mánuði og hækkar um 10%,  hækkar um kr 50.000- á mánuði og fær eftir hækkun kr 550.000-.  Og loks bankastjórinn, sem hefur kr 2.000.000- (þetta eru tvær milljónir) og hækkar um 10% á mánuði, hækkar um 200.000- og fær kr 2,2 milljónir eftir hækkun.  –  Samkvæmt eðli prósentureikningsins fengu þessir einstaklingar allir sömu hækkun, þó mismunurinn milli þess sem mest fær og þess sem minnst fær sé kr 191.000-, eða sem svarar einum mánaðarlaunum kennara  –  Svona er nú hið íslenska prósenturéttlæti skemmtilegt.

–  Sennilega er fátt mikilvægara þessari þjóð en að týna niður þekkingu sinni á prósentureikningi.  Þess vegna væri trúlega best að hætta að kenna prósentureikning í skólum landsins.  Það yrði stærsta skref sem tekið hefur verið í átt til aukins jöfnuðar í íslensku samfélagi.

Ólafur Arngrímsson 

(Þessi ágæta grein eftir Ólaf Arngrímsson er skrifuð 2004 og miðast við launatölur frá þeim tíma. Þar sem hún á afar vel við umræðuna eins og hún er um þessar mundir er hún birt hér á heimasíðunni.)