Hugmyndir forystu ASÍ og BSRB um tilflutning á fjármunum frá Virk Starfsendurhæfingarsjóði yfir til Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu ári til að fjármagna desemberuppbót gegn því að fjármunum yrði varið til að tryggja ráðgjöf og vinnumiðlun við atvinnuleitendur á næsta ári var ráðandi þáttur í þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót, eins og tíðkast hefur.
Liður í þessu samkomulagi er að fallið verði frá alvarlegum niðurskurði á ráðgjafasviði Vinnumálastofnunar og hjá Starfi – vinnumiðlun og ráðgjöf. Að baki tillögu forystu ASÍ og BSRB lá sú sannfæring að ef til þessa niðurskurðar hefði komið á þjónustu við atvinnuleitendur á næsta ári væri næsta víst að skjólstæðingum Tryggingastofnunar og Virk starfsendurhæfingarsjóðs myndi fjölga mikið á næstu mánuðum og misserum. Því skipti máli að leita leiða til þess að höggva á þann hnút sem orðin var milli stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi um afgreiðslu fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár og fjárlaga fyrir komandi ár og skipti þessi tilflutningur á fjármunum þar miklu máli.
Þó fjárveitingar til Virk á þessu ári verði skertar með því að tryggja desemberuppbótina, mun samkomulag um lausn á framlögum vegna Vinnumálastofnunar og Starfs vegna þjónustu við atvinnuleitendur á næsta ári draga úr fyrirsjáanlegri aukningu á verkefnum Virk, þannig að þegar upp er staðið er þetta skynsamleg lausn.