Ljóst er að mikil ánægja er með samkomulagið sem Framsýn gerði við Flugfélagið Erni ehf. um vildarkjör fyrir félagsmenn. Bæði Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa gerst aðilar að samkomulaginu. Nú þegar hafa selst 50 flugmiðar, það er á einni viku, sem gerir tæpar þrjár fullar vélar hjá flugfélaginu en um er að ræða 19 sæta flugvélar. Það var Ingibjörg Sigríður Ágústsdóttir á Húsavík sem verslaði fyrsta flugmiðann á Skrifstofu stéttarfélaganna, við það tækifæri fékk hún konfektkassa að gjöf frá stéttarfélögunum.
Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að aðeins félagsmenn geta flogið á þessum kjörum í einkaerindum. Börn eða makar félagsmanna geta ekki flogið á þessum kjörum samkvæmt samkomulaginu. Flugmiðarnir eru gefnir út á nafn félagsmanna sem einir geta notað þá.
Mikil ánægja er með samkomulag stéttarfélaganna við flugfélagið Erni um flugfargjöld milli Húsavíkur og Reykjavíkur.