Hinir lægst launuðu fá minnst

Margir eiga erfitt með að ímynda sér að fólk lifi af minna en 300.000 krónur í mánaðarlaun. Ráðherrar, atvinnurekendur og fleiri eiga skiljanlega erfitt með að setja sig í þau spor. Í verkalýðshreyfingunni erum við hins vegar í daglegum samskiptum við fólk sem er einmitt að reyna þetta; að lifa af mánaðarlaunum undir 300.000 krónum. Í nýútkominni könnun sem Flóabandalagið lét gera meðal félaga sinna kemur í ljós að karlar eru með að meðaltali 298.000 krónur í dagvinnulaun en konur eru með að meðaltali 255.000 krónur í dagvinnulaun. Við þessar upphæðir bætast greiðslur svo sem vaktaálag, bónusar og yfirvinna en þrátt fyrir það ná heildarlaun kvenna ekki 300.000 krónum að meðaltali. Heildarlaun karlanna fer hins vegar í 414.000 krónur að meðaltali. 40% fólks sem hefur ekki formlega menntun á vinnumarkaði er með heildarlaun undir 300.000 krónum. Þetta er veruleiki verkafólks á Íslandi hvort sem yfirvöld og samningsaðilar trúa því eða ekki.

Það vekur áhyggjur að tillögur SA ganga út frá tveggja prósenta launahækkunum sem gerir um 4.000 króna hækkun fyrir fólkið á lægstu töxtunum. Tvö prósent fyrir fólk með hálfa milljón á mánuði er hins vegar 10.000 krónur. Tillögur SA ganga ekki út á að hækka laun þeirra lægst launuðu.

Það sem vekur enn meiri áhyggjur en afstaða SA er afstaða stjórnvalda. Engar tillögur í skattamálum eða varðandi skuldaniðurfellingu sem litið hafa dagsins ljós eru til að létta láglaunafólki lífið. Þvert á móti er verið að hækka gjöld og nefskatta í gegnum fjárlagafrumvarpið en það eru gjöld sem eru óháð tekjum og koma því hlutfallslega verst niður á láglaunafólki. Skattatillögur ríkisstjórnarinnar ganga út á að láglaunafólk fær engar skattalækkanir en því hærri tekjur sem þú hefur því betur gagnast þér skattalækkunin. Sömu sögu er að segja um nýjasta útspilið, að séreignasparnaður fólks geti nýst til að lækka húsnæðisskuldir. Gott og vel, kemur örugglega einhverjum vel en aftur er þetta aðgerð sem gagnast hátekjufólki best en lágtekjufólki minnst.

Fyrst ber að nefna að fólk með lægri tekjur er með lægri sparnað en aðrir. Í öðru lagi er fólk með lágar tekjur síður líklegt til að leggja fyrir í séreign. Í þriðja lagi er umtalsverður hópur fólks með lægri tekjur á leigumarkaði. Í fyrrnefndri könnun sem gerð var á félagssvæði Flóans er greint frá því að þriðjungur aðspurðra býr í leiguhúsnæði, 12,7% býr í foreldrahúsum en aðeins ríflega helmingur býr í eigin húsnæði. Fólk með hærri tekjur er líklegra til að búa í eigin húsnæði. Það er því ljóst að þessi aðgerð mun koma mismunandi hópum misvel. Þetta er ekki aðgerð til að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem lægst hafa launin frekar en aðrar aðgerðir.

Í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins eru um 50.000 manns sem ekki hafa hlotið formlega menntun á vinnumarkaði, þetta er um helmingur starfsfólks á hinum almenna vinnumarkaði. Það er ekki ásættanlegt að allar stjórnvaldaðgerðir sem hingað til hafa verið kynntar miði að því að aðstoða tekjuhærra fólk úr greiðsluerfiðleikum. Það virðist hins vegar vera leynt og ljóst markmið stjórnvalda að einblína á einn hóp frekar en annan og auka með því ójöfnuð meðal landsmanna.

Starfsgreinasambandið hefur lagt til blandaða leið krónutöluhækkunar og prósentuhækkunar í kjarasamningum, einmitt til að tryggja að misskipting aukist ekki frekar.

Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS

www.sgs.is