Talsverður ferðahugur virðist hafa gripið landsmenn í september síðastliðnum eftir dapurt sumar veðurfarslega séð á stórum hluta landsins. Lögðu fleiri Íslendingar land undir fót í mánuðinum en raunin var í júlí síðastliðnum, en það hefur aldrei áður gerst frá því talningar hófust árið 2002. Þá varð nokkur fjölgun á brottförum Íslendinga í september frá fyrra ári, og er það fyrsti mánuðurinn frá maí síðastliðnum sem sú er raunin. Þetta kemur fram í nýbirtum gögnum Ferðamálastofu yfir brottfarir um Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE). Einnig má sjá af þeim tölum að ekkert lát er á vexti í komum erlendra ferðamanna hingað til lands og var september enn einn metmánuðurinn í þeim efnum.
Fleiri fóru utan í september en júlí
Samkvæmt tölum Ferðamálastofu voru brottfarir Íslendinga um FLE 33.488 talsins í september síðastliðnum. Er það aukning um 1.175 manns frá sama mánuði í fyrra, eða sem jafngildir fjölgun upp á 3,6%. Þá vekur athygli að 122 fleiri landsmenn fóru af landi brott í septembermánuði en í júlí síðastliðnum, þrátt fyrir að sumarleyfi landans stæðu sem hæst í júlí. Hafa brottfarir Íslendinga aldrei verið fleiri í september en júlí frá því farið var að taka slíkar tölur saman fyrir 11 árum síðan. Nærtækt er að álykta að margur Íslendingurinn hafi verið orðinn býsna sólginn í sól og sumaryl eftir afspyrnu slakt sumar á stórum hluta landsins, og því ákveðið að framlengja sumarið eilítið með utanferð. Það sem af er ári hafa tæplega 274 þúsund Íslendingar haldið af landi brott, og jafngildir það fækkun upp á hálft prósent á milli ára.
Enn eitt metið í komum útlendinga
Líkt og við höfðum búist við sló septembermánuður enn eitt metið hvað varðar fjölda erlendra ferðamanna. Brottfarir þeirra voru 73.189 talsins, og fjölgaði þar með um 13,2% á milli ára. Það er raunar næst hægasti vöxtur milli ára sem mælst hefur í einstökum mánuði það sem af er ári, en engu að síður er hér um langfjölmennasta septembermánuð frá upphafi mælinga að ræða. Háannatími í ferðaþjónustunni er nú að baki, og fækkaði erlendum ferðamönnum um 44% á milli ágúst og september. Það sem af er ári hafa 640 þúsund erlendir ferðamenn farið frá landinu um FLE, og jafngildir það 19,2% aukningu frá sama tímabili í fyrra. Eru brottfarir erlendra ferðamanna orðnar álíka margar á fyrstu níu mánuðum ársins og þær voru allt árið í fyrra, en þá voru þær 647 þúsund talsins. Að gefnum tiltölulega hóflegum forsendum um vöxt á síðustu mánuðum ársins má gera ráð fyrir að brottfarir erlendra ferðamanna um FLE munu fara upp í 760 – 770 þúsund á yfirstandandi ári.
Flýr landinn ótíðina á haustmánuðum?
Forvitnilegt verður að fylgjast með brottfarartölum þá mánuði sem eftir lifa af árinu. Hvað erlenda ferðamenn varðar verður athyglisvert að sjá hvort áfram dregur úr árstíðasveiflu í ferðum þeirra, en vöxtur í komum þeirra hingað til lands var mun hraðari síðasta vetur og vor en raunin varð á háannatímanum í júní, júlí og ágúst. Þá er ekki síður áhugavert að fylgjast með því hvort ferðagleði landans nær lengra fram á haustmánuðina, og hvort Íslendingar bæta sér í stórum stíl upp misviðrasamt sumarfrí innanlands með ferð á erlenda grundu, nú þegar dagurinn styttist og vetrarsnjór tekur við af rigningum sumarsins. (Upplýsingar, Greiningadeild Íslandsbanka)