Um síðustu helgi fór reglulegt þing Alþýðusambands Norðurlands fram á Illugastöðum í Fnjóskadal. Tæplega 100 fulltrúar frá stéttarfélögum á Norðurlandi tóku þátt í þinginu. Þingið tókst í alla staði mjög vel og var ályktað um kjara- og atvinnumál auk þess sem fundarmenn töldu mikilvægt að álykta um Reykjavíkurflugvöll. Hér má lesa ályktanir þingsins en ljóst er að Norðlendingar styðja uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka eins og sjá má hér að neðan.
Ályktun um efnahags-, kjara- og atvinnumál
33. þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahags-, kjara- og atvinnumála í landinu.
33. þing Alþýðusambands Norðurlands hvetur aðila vinnumarkaðarins til að hraða vinnu við endurnýjun kjarasamninga. Vegna mikillar óvissu í efnahagsstjórnun landsins telur þingið óráðlegt að semja til lengri tíma en 6 til 12 mánaða.
Í slíkum samningi þarf fyrst og fremst að leggja áherslu á aukinn kaupmátt, sem næðist með hækkun launa og persónuafsláttar sem kæmi öllum launamönnum til góða.
Jafnframt þarf að hefja vinnu við lengri samning sem tekur við af skammtímasamningi.
Sérstök hækkun lægstu launa er krafa sem gildir bæði fyrir stuttan og langan samning. Jafnframt er nauðsynlegt að horfa til útflutningsgreina og ferðaþjónustu um sérstaka leiðréttingu.
33. þing Alþýðusambands Norðurlands telur að eitt stærsta kjaramálið sé að allir hafi aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði, enda ríkir ófremdarástand í húsnæðismálum. Samstarf þarf að vera á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um húsnæðis- og leigukerfi á félagslegum grunni. Einn stærsti útgjaldaliður heimilanna er húsnæðiskostnaður og skiptir miklu fyrir lífskjör landsmanna að hann lækki.
33. þing Alþýðusambands Norðurlands fagnar því að uppbygging á Bakka er í sjónmáli. Einnig fagnar þingið að gerð Vaðlaheiðaganga er hafin. Miklir möguleikar eru í atvinnulífi á Norðurlandi og er það hlutverk allra, sveitarstjórna, atvinnurekenda og almennra launþega að virkja öll þau fjölmörgu tækifæri sem við eigum.
33. þing Alþýðusambands Norðurlands átelur harðlega það sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um greiðslu fyrir sjúkrahúsdvöl, stöðugan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og aðrar þær fjölmörgu skerðingar sem koma harðast niður á landsbyggðinni.
Ályktun Alþýðusambands Norðurlands.
33. þing Alþýðusambands Norðurlands skorar á Alþingi og Reykjavíkurborg að tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar. Flugvöllurinn skiptir mjög miklu máli í sambandi við öryggi íbúa landsins sem þurfa á bráðri hjálp að halda vegna veikinda eða slysa sem verða fjarri Reykjavík.
Með vellinum geta starfsmenn fyrirtækja og stofnanna á landsbyggðinni sem þurfa að sækja þjónustu stjórnsýslunnar, sem nánast öll er staðsett í Reykjavík, gert það með mun lægri tilkostnaði en ef hann væri staðsettur annars staðar. Núverandi staðsetning flugvallarins styrkir þannig öflugri byggð utan Reykjavíkur sem er hagur allra landsmanna.
Ljóst er að flugvöllurinn gegnir veigamiklu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar og má benda á að í gegnum tíðina hefur verið byggð upp opinber þjónusta á höfuðborgarsvæðinu fyrir almannafé, ekki síst af landsbyggðinni og því gerir 33. þing Alþýðusambands Norðurlands þá kröfu að íbúum landsbyggðarinnar verði áfram veitt aðgengi að þeirri þjónustu í gegnum flugvöllinn í Vatnsmýrinni.
Tæplega 100 manns tóku þátt í þingi AN á á Illugastöðum síðasta föstudag og laugardag. Fríður hópur fólks fór frá Framsýn og Þingiðn á þingið.
Þingfulltrúar Framsýnar eru hugsi á þessari mynd.
Það sama á við um Huld Aðalbjarnar sem er hér að skoða ársreikninga sambandsins en hún gerði grein fyrir þeim á þinginu. Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík sér um að halda utan um fjármál og bókhald Alþýðusambands Norðurlands.