Framsýn, stéttarfélag hefur síðustu mánuði unnið að mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við atvinnurekendur. Félagið hefur haldið félagsfundi um kjaramál og vinnustaðafundi þar sem kjaramál hafa verið til umræðu. Þá hefur félagið einnig ályktað um kjaramál þar sem stefnu félagsins hefur verið komið á framfæri út í samfélagið. Gengið var frá endanlegri kröfugerð félagsins í gær.Framsýn er aðili að þremur landssamböndum, Starfsgreinasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Landssambandi ísl, verslunarmanna. Framsýn hefur ákveðið að fela samböndunum samningsumboð félagsins í komandi viðræðum við atvinnurekendur.
Almennar áherslur félagsins eru:
- Framsýn telur ekki ráðlegt að ganga frá kjarasamningum í haust til lengri tíma þar sem fjárlagafrumvarpið er ekki komið fram og ný ríkistjórn hefur ekki viljað gefa upp hvað hún hyggst gera í efnahagsmálum. Í ljósi þessa telur félagið að fleyta eigi núverandi kjarasamningum áfram um 6 til 8 mánuði. Á móti komi launahækkun til félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands ísl, verslunarmanna þann 1. desember 2013, þegar núverandi kjarasamningar renna út. Hækkanirnar taki mið af verðbólgu- og launaþróun á árunum 2012-13.
- Í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur leggur Framsýn mikla áherslu á að stéttarfélög verkafólks fari saman til að tryggja félagsmönnum sem bestan árangur út úr viðræðunum. Markmiðið verði að auka kaupmátt launa og tryggja lága verðbólgu.
- Launahækkanir taki mið af getu útflutningsgreinanna og þeirra greina sem skilað hafa methagaði á undanförnum árum með tilheyrandi arðgreiðslum til hluthafa. Sá grunnur verði notaður varðandi hækkanir til annarra hópa verkafólks. Jafnframt verði horft til þeirra athugana sem gerðar hafa verið á framfærsluþörf heimilanna í landinu þegar lágmarkskjör eru ákveðin.
- Kröfur verkalýðshreyfingarinnar til launabreytinga taki einnig mið að því að eyða með öllu kynbundnum launamun.
- Lífeyrissjóðakerfið verði tekið til endurskoðunar. Markmiðið verði að samræma réttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna sem greiða í almennu lífeyrissjóðina.
- Framlög til starfsmenntasjóða; Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar, Sjómenntar og Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks verði aukin til að tryggja félagsmönnum og fyrirtækjum sem aðild eiga að sjóðunum aukna styrki til starfsmenntunar.
- Samið verði um ákveðnar samræmdar reglur varðandi vímuefnapróf á vinnustöðum.
- Unnið verði að því að stytta vinnuvikuna til samræmis við kjarasamninga á hinum Norðurlöndunum.
Framsýn hefur lagt mikla vinnu í að móta kröfugerð félagsins vegna komandi kjaravirðræðna við atvinnurekendur. Gengið var endanlega frá kröfugerðinni í gær, miðvikudag.