Stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa eignast Garðarsbraut 26. Um er að ræða tæplega 300m2 rými á efri hæð sem liggur samsíða Árgötu og snúa gluggar til norðurs út að Árgötu og suðurs inn í port bakvið húsið og þá snúa svalir yfirbyggðar til austurs að Garðarsbraut. Húseignin hefur staðið tóm í nokkur ár. Hér á árum áður var rekin öflug saumastofa í húsinu síðar verslun, nuddstofa og hárgreiðslustofa. Undanfarið hefur húseignin verið í eigu Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis.
Að sögn Aðalsteins Árna Baldurssonar forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna er markmið félaganna að koma lífi og atvinnustarfsemi í húsnæðið. Væntanlega verður ráðist í lagfæringar á húsinu utanhús næsta sumar, eða jafnvel í haust. Til greina kemur að leigja húsnæðið undir almenna atvinnustarfsemi eða breyta húsnæðinu í skrifstofur með aðgengi að orlofsíbúð fyrir félagsmenn stéttarfélaganna, ekki síst þeirra sem búa utan Húsavíkur. Þá vanti stéttarfélögunum orðið geymslupláss undir ýmislegt sem fellur undir starfsemi stéttarfélaganna. Jafnframt segir Aðalsteinn að fréttir af hugsanlegri uppbyggingu PCC í Bakka séu afar jákvæðar og kalli á aukið atvinnuhúsnæði á Húsavík.
Markmið stéttarfélaganna er að koma lífi í efri hæðina að Garðarsbraut 26 sem liggur samsíða Árgötunni. Húsnæðið hefur staðið autt í nokkur ár.