Umboðið til SGS og LÍV

Framsýn, stéttarfélag boðaði til félagsfundar í dag um kjaramál. Í upphafi fundar fór formaður félagsins hefur stöðu mála og hvenær kjarasamningar félagsins verða lausir. Þeir kjarasamningar sem Framsýn á aðild að eru almennt lausir í haust og fljótlega eftir næstu áramót. Á fundinum í dag var kallað eftir kröfum félagsmanna en til stendur að móta kröfugerðina í sumar og leggja hana fram í haust. Þá verður félagsmönnum einnig boðið að koma sínum kröfum/skoðunum á framfæri við stjórn félagsins með því að senda þær á netfangið framsyn@framsyn.is. Fram kom hjá formanni að þegar hafa komið fram margar ábendingar frá félagsmönnum um það sem betur má fara. Það er bæði með tölvupóstum og eins hafa þær komið fram á vinnustaðafundum en fulltrúar félagsins hafa heimsótt flesta vinnustaði á félagssvæðinu á undanförnum mánuðum. Á fundinum í dag var jafnframt samþykkt að veita Starfsgreinasambandi Íslands og Landssambandi ísl, verslunarmanna umboð til að semja fyrir hönd félagsins. Framsýn áskilur sér hins vegar rétt til að afturkalla umboðið telji félagið ástæðu til þess. Sjómannasamband Íslands er þegar komið með samningsumboð Framsýnar varðandi sjómenn innan félagsins en sambandið hefur átt í viðræðum við LÍÚ með hléum um kjaramál sjómanna. Því miður hefur sá samningur verið laus í nokkur ár vegna áhugaleysis LÍÚ.

Hópur fólks kom saman í dag til að móta kröfugerð Framsýnar fyrir komandi kjaraviðræður. Margar tillögur komu fram sem unnið verður úr og skilað til þeirra sambanda sem fara með samningsumboð félagsins í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur.