Aðalfundur Framsýnar, stéttarfélags Þingeyinga fór fram í gærkvöldi. Fundurinn fór vel fram og voru fundarmenn mjög ánægðir með rekstur og starfsemi félagsins á umliðnu starfsári. Fundarmenn töldu ástæðu til að klappa fyrir starfsemi og rekstri félagsins. Hér koma nokkrir fréttamolar frá fundinum:
- Félagssvæði Framsýnar nær yfir sveitarfélögin; Norðurþing, Þingeyjarsveit, Skútustaðahrepp og Tjörneshrepp.
- Innan félagsins eru 2418 félagsmenn. Af þeim greiddu 2193 félagsgjald. Öryrkjar og aldraðir félagsmenn greiða ekki félagsgjald til félagsins. Kynjaskiptin er nánast jöfn í félaginu.
- Rekstur félagsins gekk vel og varð rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins samtals 127.402.818 kr. Eigið fé í árslok 2012 var 1.369.803.199 kr.
- Félagið greiddi félagsmönnum bætur og styrki úr sjúkrasjóði félagsins upp á 24,5 milljónir.
- Vinnumálastofnun greiddi félagsmönnum Framsýnar sem voru á atvinnuleysisskrá 150 milljónir í atvinnuleysisbætur á síðasta ári.
- Í ljósi góðrar stöðu Framsýnar samþykkti aðalfundurinn að stórhækka réttindi félagsmanna úr sjóðum félagsins enda markmið félagsins að vera í fremstu röð stéttarfélaga. Það er úr sjúkra- og starfsmenntasjóði félagsins.
- Árið 2012 greiddi sveitarfélagið Norðurþing mest allra til Framsýnar eða 8.103.202 kr. Það er í kjarasamningsbundinn iðgjöld. Innifalið í þessari upphæð er félagsgjöld starfsmanna sem þeir greiða sjálfir. Í öðru sæti er svo GPG-Fiskverkun og útgerðarfyrirtækið Brim hf. er í þriðja sæti.
- Á fundinum voru teknar fyrir og samþykktar siðareglur fyrir félagið. Jafnframt voru kjörnir fulltrúar í siðanefnd.
- Framsýn vill efla starf ungra félagsmanna í ákvarðanatökum innan félagsins. Í tilefni af því var samþykkt á aðalfundinum að stofna ungliðaráð innan félagsins sem skipað verður í haust.
- Á árinu 2013 fengu 228 félagsmenn greiddar 6.788.722 kr. í einstaklingsstyrki úr þeim fræðslusjóðum sem Framsýn á aðild að.
- Samkvæmt úttekt Starfsgreinasambands Íslands á aðildarfélögum sambandsins stendur Framsýn mjög vel, veitir góða þjónustu auk þess að halda úti öflugustu heimasíðu stéttarfélags innan Alþýðusambands Íslands.
- Á fundinum var ályktað um kjara- og atvinnuál sem eru hér meðfylgjandi:
Ályktun um kjaramál
„Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags hvetur til samstöðu allra aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands í komandi kjaraviðræðum í haust við fyrirtæki, ríki og sveitarfélög.
Því miður hafa stéttarfélögin ekki náð fram viðunandi árangri fyrir hönd sina umbjóðenda. Starfsgreinasambandið hefur verið klofið innbyrðis og hefur það veikt samtakamáttinn til sóknar fyrir verkafólk. Samstaðan er besta vopnið til að ná fram bættum kjörum fyrir verkafólk sem nýtur þess vafasama heiðurs að verma botninn þegar kemur að framfærslu.
Krafan er að lægstu launin verði hækkuð umfram önnur laun, launajafnrétti kynjanna verði virt, vinnuvikan verði stytt og hækkanir taki mið af getu útflutningsfyrirtækjanna sem standa almennt vel um þessar mundir.
Þá gerir Framsýn þá kröfu að nýkjörin ríkistjórn leggi fram raunhæfar tillögur um aðgerðir sem miði að því að skapa stöðugleika og lága verðbólgu í þjóðfélaginu. Það er í raun besta kjarabótin sem almenningur getur fengið í dag og lykillinn að þjóðarsátt í landinu til næstu ára.“
Ályktun um atvinnumál
„Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags hvetur stjórnvöld til að fylgja eftir áætlunum fyrri ríkistjórnar um uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka við Húsavík. Mikilvægt er að ríkistjórnin taki við keflinu og styðji heimamenn í að landa þeim verkefnum sem eru til skoðunar.
Það hefur lengi verið skoðun Framsýnar að nýta eigi þá miklu orku sem er óbeisluð í Þingeyjarsýslum til atvinnuuppbyggingar í héraðinu. Það er í sátt við umhverfið.
Þá fagnar félagið aðkomu Byggðastofnunar að málefnum Raufarhafnar sem átt hefur undir högg að sækja í byggða- og atvinnumálum. Framsýn bindur vonir við að með samstilltu átaki Byggðastofnunar, sveitarfélaga, menntastofnanna og stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum verði hægt að breyta lífsskilyrðum fólks á Raufarhöfn til betri vegar.
Varanleg kjölfesta í atvinnulíf svæðisins fæst þó ekki nema með uppbyggingu og stuðningi við sjávarútveg, bæði veiðar og vinnslu. Þar gegna stjórnvöld lykilhlutverki.“
Í upphafi fundar var látina félagsmanna minnst.
Fólk var á öllum aldri á fundinum í gær sem fór afar vel fram.
Fundarmenn voru ánægðir með tillögur stórnar og trúnaðarmannaráðs um að stórhækka greiðslur til félagsmanna úr sjóðum félagsins. Framsýn er um þessar mundir eitt öflugasta stéttarfélag landsins.
Virk í starfi Framsýnar. Jakob, Ósk og Einar Magnús hafa öll verið virk í starfsemi félagsins og sitja öll í stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins. Þau eiga það sameiginlegt að hafa átt stór afmæli á síðustu mánuðum. Í tilefni af því fengu þau smá glaðning frá félaginu.