Í dag, 19. júní 2013 höldum við uppá að það eru 98 ár síðan konur fengu kosningarétt í almennum kosningum í fyrsta sinn. Að vanda gefur Kvenréttindafélag Íslands út blaðið 19. júní í tilefni dagsins en í blaðinu að þessu sinni má finna viðtal við þær Önnu Júlíusdóttur og Kristbjörgu Sigurðardóttur. Báðar hafa þær unnið almenn störf á vinnumarkaði til áratuga og eru varaformenn sinna verkalýðsfélaga. Viðtalið tók Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og er það að finna í heild sinni hér að neðan en blaðið má nálgast hér: http://issuu.com/kvenrettindafelag/docs/19juni_2013
Kreppan og konur án fagmenntunar
Anna og Kristbjörg hafa tekið þátt í verkalýðsmálum í áratugi sem trúnaðarmenn og stjórnarkonur í sínum verkalýðsfélögum á Norðurlandi. Þær eru með puttana á púlsinum um stöðu kvenna á vinnumarkaðnum:
„Það er staðreynd að kvenlæg störf eru ver borguð en þau sem eru hefðbundin karlastörf, við sjáum það í töxtunum. Til dæmis raðast hefðbundin kvennastörf aldrei í sautjánda launaflokk í kjarasamningum eins og til dæmis hópbifreiðastjórar, en fiskverkakonur komast hæst í launaflokk 9 eftir tvö námskeið. Þar að auki hafa karlarnir miklu meiri tækifæri til að vinna yfirvinnu þar sem heimilishaldið er meira á ábyrgð kvenna. “ Þetta segir Anna Júlíusdóttir varaformaður Einingar-Iðju í Eyjafirði en hún starfaði sem fiskverkakona í yfir 30 ár en starfar nú á skrifstofu stéttarfélaganna á Akureyri. Undir þetta tekur Kristbjörg Sigurðardóttir félagsliði á Húsavík og varaformaður Framsýnar, en Kristbjörg hefur starfað við umönnun í 40 ár.
Þær eru sammála um að kreppan síðustu ár hafa komið mismunandi niður á fólki eftir búsetu annars vegar og starfsstéttum hins vegar. „Við vorum í bullandi kreppu hér fyrir Norðan þegar allt var í bullandi uppgangi á höfuðborgarsvæðinu en svo þegar kreppan kom þá kom hún heldur ekkert til okkar frekar en uppsveiflan. Við vorum að basla með okkar litlu eignir en við fórum ekki í bilunina, við höfðum ekki efni á því. Lánin hafa hinsvegar hækkað hjá verkafólki eins og öðru fólki en það á frekar við greiðsluvanda að stríða en skuldavanda“ segir Anna en hún sér ekki mun á því hvernig konur eða karlar fóru út úr kreppunni en sér hins vegar töluverðan mun milli landssvæða; „Við höfum aldrei skilið þessi laun sem voru greidd á höfuðborgarsvæðinu, við vorum bara á töxtunum á meðan við fréttum af miklum yfirborgunum fyrir sunnan. Við eigum í raun meiri samleið með fólki á höfuðborgarsvæðinu eftir að kreppan skall á.“
Kristbjörg hins vegar telur að kreppan hafi haft mismunandi áhrif á kynin og þá sérstaklega á umönnunarstéttirnar þar sem hún þekkir til. „Það hefur verið aukið álag á umönnunarstéttirnar síðustu árin, eiginlega verulega mikil aukning jafnhliða því að þyngdin hefur aukist, við erum með fleira fólk sem þarf mikla aðstoð enda verður niðurskurðurinn á spítölunum til þess að fólk sem þarf mikla umönnun fer inn á umönnunarstofnanir þar sem almennt starfsfólk sinnir því, en það er líka verið að fækka starfsfólki þannig að það sem eftir er þarf að taka á sig meiri vinnu.“ Kristbjörg segir þetta aðallega eiga við um kvennastéttirnar í umönnun þar sem hún þekkir til. Hún bendir á að konur hafa umvörpum orðið fyrir beinni kjaraskerðingu í hruninu: „ Það var skorin niður prósentan á starfsmönnum strax í upphafi hrunsins. Konum var til dæmis gert að fara niður í 80% vinnu en ef vantar aukavaktir þarf fólk að vinna upp í 100% vinnuna á dagvinnulaunum áður en það fær yfirvinnuna. Það er því í raun sveigjanlegt starfshlutfall á mörgum stöðum í þessum geira. Þar að auki voru vaktir styttar á mörgum stöðum þannig að þó starfshlutfallið minnki þá mætirðu jafn oft í vinnuna yfir mánuðinn.“ Anna staðfestir að álagið á kvennastéttirnar í umönnun er farið að segja til sín, „Það er að koma inn stór hópur kvenna sem er orðinn slitinn á líkama vegna álags vegna vinnu hjá sveitarfélögum og ríki þar sem er stöðugt verið að herða að og fækka fólki og auka álag. Þetta sést á því að það er aukin ásókn í sjúkrasjóðina, fólk er bara búið á því.“
Niðurskurðurinn í kjölfar hrunsins kom hart niður á sérstaklega kvennastéttum að mati Kristbjargar og hún nefnir ræstingastörfin sem hina eilífu niðurskurðarstétt. „Það er alltaf byrjað á ræstingarstéttinni og kreppa síðustu ára er engin undantekning. Stykkin hafa stækkað og fólki er ætlað að hlaupa hraðar. Það er hins vegar ekki hægt að reka sjúkrastofnun nema það sé þrifið og því er stéttin mikilvægari en margar aðrar stéttir innan spítalans.“ Innt eftir því af hverju ekki sé hægt að ná betri kjörum fyrir ræstingarfólk vill Kristbjörg meina að það sé vegna lítils starfsöryggis: „Stéttin er verkakonur en flestar aðrar stéttir eru búnar að mennta sig eitthvað og hafa því starfsöryggi út frá því. Það þarf einfaldlega að gera ræstinguna að faglærðri stétt.“ Kristbjörg vill þó vekja athygli á því að það mælist ekki meiri launamunur kynjanna meðal ræstingafólks en annarra stétta í til dæmis heilbrigðisgeiranum; „það er þó jákvætt að mismunun í launum kynjanna sé ekki meiri meðal þessarar stéttar en annarra.“
Þegar Anna er spurð að því hvað eigi að gera í hinum kynbundna launamuni segir hún það forgangsverkefni að hækka svokölluðu kvennataxta: „Ef hefðbundin kvennastörf eru ekki metin meira þá hafa karlar engan áhuga á að sinna þeim. Ef konur hins vegar fara í hátt launuðu störfin þá er eins og það verði töfraformúla að launin lækka um leið.“ Hún segir konur hins vegar vera duglegri að sækja sér menntun og það sést á menntastyrkjunum sem stéttarfélögin útdeila. Þannig reyni konur að hífa upp launin.
Við skiljum við þær Önnu og Kristbjörgu í sólinni á Húsavík fyrsta vordaginn eftir erfiðan vetur, en þar voru þær staddar til að taka þátt í undirbúningi Starfsgreinasambands Íslands fyrir komandi kjarasamninga. Í síðustu samningum hefur krafan um hækkun lægstu launa verið reist og er það áfram áherslumál félaga innan Starfsgreinasambandsins. Hækkun lægstu launa gagnast fleiri konum en körlum því eins og fram hefur komið eru það konurnar í umönnun, ræstingum og framleiðslugreinunum sem búa við minnstu yfirborganirnar og eru því háðar taxtahækkunum til að fá meira í launaumslagið. Næsti vetur sker úr um árangurinn.
Viðtölin tók Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. (www.sgs.is)
Þessi mynd er tekin á Húsavík þegar formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fór fram fyrir nokkrum dögum. Anna er varaformaður Einingar-iðju og Kristjörg varaformaður Framsýnar- stéttarfélags.