Á sólskinsdegi á Húsavík 15. júní 2013 féll góður félagsmaður Framsýnar – stéttarfélags frá, Sigríður Matthildur Arnórsdóttir eða Sigga Matta eins og hún var jafnan kölluð. Sigga Matta var fædd í Jörfa á Húsavík 19. maí 1926. Sigríður byrjaði ung á vinnumarkaði, um tíma starfaði hún m.a. sem afgreiðslustúlka hjá Pöntunarfélagi Verkamanna og sem handavinnukennari en lengst af sem við afgreiðslustörf og verslunarstjórn hjá Kaupfélagi Þingeyinga – vefnaðarvörudeild.
Sigga Matta var ein af stofnendum Verslunarmannafélags Húsavíkur árið 1965 og sat í fyrstu stjórn félagsins og varð síðar formaður þess á árunum 1968-1972. Hún var einlægur verkalýðssinni og mannvinur og hvar sem hægt var að leggja lóð á vogaskálar réttlætis og jöfnuðar, kom Sigga Matta með gott innlegg og stuðning á sinn einlæga og hlýlega hátt.
Stjórn- og starfsfólk Framsýnar – stéttarfélags þakkar Siggu Möttu gott framlag og óeigingjarna vinnu fyrir Verslunarmannafélag Húsavíkur (síðar Framsýn – stéttarfélag). Fjölskyldu hennar, öðrum aðstandendendum og vinum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Sigga Matta var einlægur verkalýðssinni og mannvinur. Faðir hennar, Arnór Kristjánsson, var formaður Verkamannafélags Húsavíkur um tíma en málverk af honum er á Skrifstofu stéttarfélaganna.