Björguðu lífi með réttum viðbrögðum

Rauði krossinn veitti björgunarsveitarmönnunum Grétari Guðmundssyni og Steingrími S. Stefánssyni viðurkenningar fyrir rétt viðbrögð er hjarta starfsfélaga þeirra stöðvaðist. Viðurkenningarnar voru afhentar í starfsstöð RKÍ á Ákureyri á 112 daginn.

Sigurður Samúelsson verkstjóri í sláturhúsi Norðlenska á Húsavík var við störf í byrjun oktober í fyrra, þegar hjartað stöðvaðist.

Grétar heyrði öskur í vinnusalnum og gerði sér strax grein fyrir því að eitthvað alvarlegt var að gerast. Hann hjóp á hljóðið  og sá Sigurð liggjandi á gólfinu, sem var farinn að blána. Grétar hóf strax endurlífgun með hjartahnoði ásamt Steingrími vinnufélaga sínum.

Aðstæður á vettvangi voru mjög erfiðar vegna þrengsla og bleytu, en félagarnir hnoðuðu þar til aðstoð barst frá lögreglu og sjúkraliði.

Sigurði voru svo gefin tvö hjartastuð, sem höfðu jákvæð áhrif á hjartað.

Grétar og Steingrímur eru báðir björgunarsveitarmenn og hafa fengið margvíslega þjálfun í skyldihjálp.

Síðar kom í ljós að kransæðar voru stíflaðar hjá Sigurði, auk þess sem hann reyndist vera með hjartagalla. Hann fékk gangráð og gat hafið störf fljótlega.

„Óhætt er að segja að Grétar og Steingrímur björguðu lífi Sigurðar með viðbrögðum sínum. Þeir héldu ró sinni og yfirvegun á meðan aðrir stóðu frosnir og lögðu ekki í að taka málin í sínar hendur,“segir í umsögn RKÍ. karleskil@vikudagur.is

Sigurður Samúelsson ásamt lífgjöfum sínum, þeim Steingrími Stefánssyni og Grétari Guðmundssyni. Mynd: Vikudagur