Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna síðasta miðvikudagskvöld. Formaður deildarinnar, Jóna Matthíasdóttir flutti skýrslu stjórnar fyrir nýliðið starfsár. Ný stjórn og varastjórn var kjörin, Jóna Matthíasdóttir, Jónína Hermannsdóttir og Birgitta Bjarney Svavarsdóttir í aðalstjórn og Katarzyna Osipowska og Kári Kristjánsson í varastjórn.
Í skýrslu stjórnar kom fram að búið er að senda út launakönnun til félagsmanna deildarinnar og er skilafrestur til 10. febrúar nk. Vænst er góðrar þátttöku félagsmanna og að niðurstaðan verði deildinni gott veganesti og tól vegna komandi kjarabaráttu auk þess að gefa góða mynd af kjörum félagsmanna okkar. Þá var gerð grein fyrir nýjum bæklingi Framsýnar sem tekur á helstu upplýsingum um styrki og þjónustu félagsins. Fundarmenn gerðu góðan róm af þessu framtaki félagsins. Í kjölfarið voru nokkrar umræður um réttindi og skyldur félagsmanna. Þá sýndu starfsmenn félagsins nýja félagsjakka Framsýnar sem eru á góðu tilboði frá 66N og verða jakkar til mátunar og pöntunar nú í febrúar. Nokkrar umræður urðu um almennar verðhækkanir á matvöru og öðrum gjöldum, sem kemur verulega við pyngju félagsmanna. Gert var grein fyrir verkefni Framsýnar sem unnið er í góðu samstarfi við Verðlagseftirlit ASÍ en hert verður á verðlagseftirliti á árinu.
Formaður og varaformaður deildarinnar ræða málin fyrir aðalfundinn.