Fjölbreyttur matseðill í fjárhúsinu á aðfangadag

Það er ekki bara að mannfólkið geri vel við sig í mat og drykk um jólin heldur gera bændur víða um land einnig vel við sinn búpening í tilefni jólanna. Við gerðum okkur ferð með formanni Framsýnar, Aðalsteini Á. Baldurssyni, í fjárhúsið eftir lokun skrifstofunnar í dag en skrifstofa stéttarfélaganna var opin fram að hádegi. Aðalsteinn er þekktur tómstundabóndi og er einn af þeim sem bíður sínum fjárstofni upp á margréttaða máltíð á aðfangadag. 

Að sögn Aðalsteins ætlar hann og félagar hans sem standa að búskapnum að gefa kindunum  grænmetisrétt í forrétt með saltaðri síld. Í aðalrétt verður vel verkað nýræktarhey frá góðum bónda á Tjörnesinu. Í eftirrétt verður svo boðið upp á eðalbrauð úr Heimabakarí með bragðbættu þorskalýsi. Það gerist ekki betra. 

Áður en veislan hefst verða bændur í Grobbholti að fara út með hrútana  enda stendur fengitíðin yfir um þessar mundir og því mikið fjör hjá hrútunum. Hrútarnir fá svo kærkomið jólafrí, reyndar eftir jól, enda hafa þeir verið undir miklu álagi undanfarnar vikur.

Gamli fiskvinnslumaðurinn brytjar síldina niður í hæfilega stærð svo hún renni ljúflega niður í maga kindanna.

Appelsínur, bananar, epli og fleira grænmeti blandað saman í ómótstæðilegan rétt fyrir kröfuharðar kindur.

Að lokum er brauð og lýsi sett yfir vel verkað hey og kindurnar ljóma af gleði. Kristján bóndi Eiðsson gerir það.

Ekki er hægt að yfirgefa húsið nema gefa þeim smá brauð í jólagjöf.

Einhverjar sögusagnir hafa verið uppi um að gullhrúturinn Guðni hafi verið slakur á fengitímanum. Þeim sögusögnum er vísað á bug eins og sjá er hann að skoða eina sem hann ætlar að eiga lömb með í vor.

Gráni í Grobbholti er fallegur hrútur sem gefur afburða góð afkvæmi. Hann er sonur Grábotna sem er vinsælasti sæðingahrútur landsins en árið 2010 voru sendir út  2.865 skammtar úr honum. Í dag er hann „spari“ hrútur stöðvarinnar segir í frétt á Vísi.is.