Undanfarna mánuði hefur verið unnið að verkefni um framtíð Raufarhafnar á vegum Norðurþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Byggðastofnunar og Íbúasamtaka Raufarhafnar. Markmið verkefnisins er að styrkja stöðu byggðar á Raufarhöfn. Framsýn hefur einnig látið sig málið varða en íbúar á Raufarhöfn leituðu til félagsins þar sem þeir óttuðust um sína stöðu og framtíð Raufarhafnar. Í kjölfarið vakti félagið athygli á stöðu samfélagsins á Raufarhöfn. Nú hefur verkefnastjórnin ákveðið að boða til íbúafundar í félagsheimilinu á Raufarhöfn mánudaginn 10. desember kl. 17:30.
Á fundinum verður sagt frá þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram, niðurstöðum íbúafundar í október s.l. og rætt um framhald verkefnisins. Kynnt verður hvernig standa á að íbúaþingi sem halda á í ársbyrjun 2013. Mikilvægt er að sem flestir mæti á fundinn. Fulltrúar Framsýnar verða að sjálfsögðu á staðnum.