Miðstjórn ASÍ leggst alfarið gegn því að hinn almenni félagsmaður fái að kjósa sér forseta samtakanna, og vill að það verði áfram í höndum fulltrúa á þingum ASÍ. Þetta kemur fram í umsögn miðstjórnarinnar um tillögu sem Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness ætlar að leggja fram á næsta þingi samtakanna, sem haldið verður í næstu viku. Vilhjálmur segir í viðtali við Skessuhorn að þessi afstaða sýni að þeir sem stjórni verkalýðshreyfingunni vilji alls ekki gefa hinum almenna félagsmanni færi á að velja sér forseta eftir eigin höfði. (visir.is)
Afstaða Miðstjórnar ASÍ varðandi tillögu sem Verkalýðsfélag Akranes hefur lagt fram er nokkuð merkileg, ekki síst í ljósi þess að hreyfingin hefur kallað eftir auknu lýðræði eftir hrunið. Á fundi sem Alþýðusambandið boðaði til með fulltrúum frá Framsýn, Einingu-Iðju, Verkalýðsfélagi Þórshafnar og Þingiðn um starfsemi sambandsins kom skýrt fram hjá fundarmönnum að eðlilegt væri að forseti ASÍ á hverjum tíma væri kjörinn í beinni kosningu félagsmanna ASÍ. Miðstjórn ASÍ telur greinilega ekki ástæðu til að hlusta á raddir félagsmanna þessara stéttarfélaga innan sambandsins.
Fulltrúar frá Einingu-Iðju, Þingiðn, Verkalýðsfélagi Þórshafnar og Framsýn fara hér yfir skipulag og starfsemi ASÍ. Alþýðusambandið boðaði til fundarins sem haldinn var á Húsavík. Sambærilegir fundir um sama málefni voru haldnir víða um land.
Félagar úr Einingu-Iðju fá sér að borða eftir fundinn sem var mjög gagnlegur en hann var með þjóðfundarsniði.
Stefna stjórnar Framsýnar er að fylgja eftir skoðunum félagsmanna. Það er hugsanlega skýringin á því að félagið nýtur mikillar virðingar meðal félagsmanna. Meðal skilaboða sem stjórnin hefur fengið frá félagsmönnum er að forseti ASÍ verði á hverjum tíma kjörinn í beinni kosningu félagsmanna ASÍ og þá hræðast menn inngöngu í Evrópusambandið eins og myndin ber með sér. Þessum skilaboðum mun stjórn Framsýnar fylgja eftir. Greinilegt er að Miðstjón ASÍ er ekki á þessari línu þrátt fyrir skýr skilaboð.
Fundarmenn eru hér að skoða helstu niðurstöður eftir umræðurnar sem fram fóru um starfsemi ASÍ. Það atriði sem skoraði lang mest var krafan um að forseti ASÍ á hverjum tíma væri kjörinn í beinni kosningu félagsmanna ASÍ.