Stórleikur framundan um helgina -Taktu þátt í sigurgöngu-

Nú eru að hefjast Mærudagar á Húsavík sem er bæjarhátíð heimamanna. Dagskrá Mærudaga er vegleg að vanda og margir forvitnilegir viðburðir fara fram. Einn af þeim er stórleikur Torgara og Miðbæinga í fótbolta sem fram fer næsta laugardag kl. 12:00. Í Skarpi í dag er grein eftir Aðalstein Torgara Baldursson um leikinn. Lesa grein:

Þá er komið að árvissum Mærudögum sem er ómissandi þáttur í bæjarlífinu á Húsavík. Að venju verður ýmislegt  til skemmtunar í bænum og vonandi á veðrið eftir að leika við okkur. Tilefni þessa skrifa er að hvetja bæjarbúa til að vera virka í hátíðarhöldunum og minna á einn dagskrárlið sem er uppgjör Miðbæinga og Torgara í tuðrusparki sem fram fer á Húsavíkurvelli á laugardaginn kl. 12:00. Þar munu eldgamlar svokallaðar „hetjur“ etja kappi og það verður ekkert gefið eftir þrátt fyrir allt of háan blóðþrýsting leikmanna, æðahnúta, kviðslit, elliglöpp og þó nokkur aukakíló sem teljast í tugum kílóa og umliggja síður og rassa keppenda. Hér á árum áður spiluðu Miðbæingar og Torgarar nánast daglega á vellinum á Torginu og þar var tekist á. Að sjálfsögðu unnu Torgarar alltaf, ekki spurning. Nú velta menn fyrir sér, tekst Miðbæingum loksins að rjúfa Torgaramúrinn og sigra? Í það minnsta, hefur það tekið þá nokkur ár að safna saman liði til að takast á við Torgara á Mærudögum. Sagan segir að þeir verði með alþjóðlegt lið og í það minnsta tvo bæjarstjóra. Að venju munu Torgarar stilla upp verkalýð þessa lands enda lítið gefnir fyrir einhver starfsheiti. Sveinn Pálsson verður þjálfari Torgara og Ævar Áka væntanlega framkvæmdastjóri. Þá verða systurnar Dóra og Lóla Ármannsdætur í lykilhlutverkum fyrir Torgara. Dóra sem stuðningsfulltrúi og Lóla sem eftirlitsmaður með hjartslætti leikmanna. Mikil leynd hvílir yfir leikmannavalinu og á það eftir að koma verulega á óvart.  Torgarar lögðu til að leikurinn yrði spilaður kl. 17:00 á laugardaginn enda væru flestir vaknaðir eftir næturlífið og í góðu standi til að fylgjast með þessum einstaka viðburði. Þessu höfnuðu Miðbæingar algjörlega og lögðu til að leikurinn færi fram fyrir luktum dyrum þar sem þeir óttuðust stórtap, ekki síst eftir nýlegar yfirlýsingar Helga Helgasonar frá Grafarbakka í Skarpi. Eftir stranga og langa samningafundi var fallist á að koma að hluta til móts við Miðbæinga og færa leikinn til kl. 12:00 á hádegi. Væntanlega verða ekki allir vaknaðir þá, sem annars hefðu komið og horft á leikinn hefði hann verið spilaður kl. 17:00. Því fagna Miðbæingar að sjálfsögðu ógurlega. Eins og fram hefur komið fer leikurinn fram kl. 12:00 á Húsavíkurvelli. Sigurganga(skrúðganga) hefst kl. 11:00 frá Árholti. Þaðan verður gengið fylltu liði út á íþróttavöll undir tónlist og fánahyllingu  en nýlega fundust við fornleyfagröft á Torginu, nálægt Kvíabekk, einstakir fánar í rauðum lit sem vísa til uppruna Rauðatorgsins. Fánarnir verða áberandi í skrúðgöngunni enda ekki áður komið fyrir sjónir almennings. Ástæða er til að hvetja alla bæjarbúa til að taka þátt í sigurgöngunni sem er öllum opin, það er Torgurum, Hólurum, Suðurbæingum, Miðbæingum, Útbæingum og gestum þeirra. Við upphaf leiksins verður friðardúfum sleppt til að róa Miðbæinga fyrir væntanlegt stórtap. Sýslumaður okkar Þingeyinga verður á staðnum og mun yfirfara leikskýrslurnar og kveða upp dóm, hvort leikmenn séu gjaldgengir í lið Torgara og Miðbæinga. Ljóst er að hann verður fljótur að afgreiða leikskýrslu Torgara enda strangheiðarlegir menn. Hins vegar eru verulega miklar líkur á því að leikurinn muni tefjast þó nokkuð þar sem Miðbæingar eru þekktir fyrir að lauma utanaðkomandi leikmönnum í sitt lið. Torgarar treysta Sýsla fullkomlega til að taka á málinu og að leikurinn fari fram á tilsettum tíma. Þá mun Oggi heilbrigðisfulltrúi meta heilbrigði og  ástand leikmanna áður en dómari leiksins flautar til leiks. Ekki missa af þessari frábæru skemmtun, sjáumst hress á laugardaginn. Góða skemmtun. 

Aðalsteinn Á. Baldursson
Torgarabulla

Turtles eru töff, væntanlega er þetta skrifað vitlaust. Að sjálfsögðu á að standa, Torgarar eru töff!! Torgarar og Miðbæingar takast á um helgina.