Ætla fyrirtæki innan LÍÚ að gera út á atvinnuleysistryggingasjóð?

Framsýn hefur miklar áhyggjur af aðgerðum LÍÚ enda ólöglegar að mati félagsins. Ljóst að þær munu  koma sérstaklega illa við fiskvinnslufólk en reikna má með að fiskvinnslufyrirtæki stöðvist á næstu dögum vegna hráefnisskorts.  Í tilefni af því hefur Framsýn skrifað Vinnumálastofnun bréf og krafist þess að fylgst verði vel með framvindu mála og hvort fyrirtæki innan LÍÚ í útgerð og fiskvinnslu ætli Vinnumálastofnun/Atvinnuleysistryggingasjóði að fjármagana launakostnað fyrirtækjanna vegna aðgerðanna.Hér er verið að vitna í gildandi lög og reglugerðir sem heimila fyrirtækjum í fiskvinnslu, eftir ákveðnum reglum, að sækja um endurgreiðslur á launum starfsmanna frá Vinnumálastofnun í hráefnisskorti vegna ófyrirséðs hráefnisskorts. Að mati Framsýnar fellur heimatilbúin hráefnisskortur LÍÚ ekki undir lög og reglur fyrirtækja í fiskvinnslu um endurgreiðslur frá Vinnumálastofnun vegna hráefnisskorts. Þessum skilaboðum hefur þegar verið komið á framfæri við Vinnumálastofnun með svohljóðandi bréfi:

Vinnumálastofnun
Hr. Gissur Pétursson
Kringlunni 1
103 Reykjavík

Húsavík 5. júní 2012

Varðar kauptryggingu fiskvinnslufólks og aðgerðir LÍÚ

Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) hefur ákveðið að grípa til aðgerða vegna óánægju þeirra með frumvörp sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Aðgerðir LÍÚ koma fram í fréttatilkynningu samtakanna frá 2. júní sl. 

Þar hvetur LÍÚ félagsmenn sína til að halda fiskiskipaflotanum í landi um óákveðinn tíma til að mótmæla frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Miklar líkur eru á að aðgerðirnar muni koma mjög illa við fiskvinnslufólk og á næstu dögum komi til lokana hjá fiskvinnslufyrirtækjum vegna hráefnisskorts. 

Að mati Framsýnar fela aðgerðirnar í sér skýrt brot á 17. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og eru um leið alvarlegt brot á samskiptareglum á vinnumarkaði. 

Framsýn fer þess á leit við Vinnumálastofnun, að vel verði fylgst með því að fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu sem boðað hafa til aðgerða, fái ekki endurgreiðslur frá stofnuninni  vegna hráefnisskorts sem rekja megi til aðgerða fyrirtækjanna. 

Réttur fiskvinnslufyrirtækja á endurgreiðslum frá Vinnumálastofnun vegna hráefnisskorts byggir á lögum og reglugerðum um raunverulegan hráefnisskort en ekki heimatilbúinn skort eins og aðgerðir LÍÚ munu leiða til með verulegum kjaraskerðingum fyrir fiskvinnslufólk. 

Þá telur Framsýn löngu tímabært að stjórnvöld endurskoði gildandi lög um rétt fiskvinnslufyrirtækja til endurgreiðslna frá Vinnumálastofnun vegna hráefnisskorts, ekki síst í ljósi vinnubragða LÍÚ síðustu daga.

Frekari upplýsingar gefur undirritaður.

Virðingarfyllst!

Fh. Framsýnar- stéttarfélags

Aðalsteinn Á. Baldursson