Dregið hefur úr svartri atvinnustarfssemi

Ný skýrsla þar sem kannað er umfang svartrar atvinnustarfssemi sýnir að dregið hefur úr henni frá því í fyrra. Sl. sumar hófst átak á vegum ASÍ, SA og Ríkisskattstjóra til að sporna við svartri atvinnustarfssemi. Verkefninu var framhaldið í vetur með heimsóknum á vinnustaði og skýrsla eftir þennan annan hluta átaksins liggur nú fyrir og niðurstaðan er eins og áður segir ánægjuleg. 

Í aðdraganda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru 5. maí 2011 urðu miklar umræður um neikvæðar afleiðingar svartar atvinnustarfsemi og hvernig mætti stuðla að bættum viðskiptaháttum. Samkomulag varð á milli fulltrúa ríkisskattstjóra (RSK), Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) að efna til tímabundins átaks þessara aðila með heimsóknum á vinnustaði sem hefði að markmiði að leiðbeina um tekjuskráningu, sporna við svartri atvinnustarfsemi og upplýsa um skyldur smærri og meðalstórra rekstraraðila. Átakið fékk yfirskriftina „Leggur þú þitt af mörkum?“. Með yfirskriftinni er skírskotað til þess að bæði atvinnurekendur og launafólk hafi víðtækar skyldur gagnvart atvinnulífinu og samfélaginu í heild.

Átakið hófst 15. júní 2011 og stóð það til ágústloka það ár. Skýrsla með helstu niðurstöðum úr átakinu var gefin út 2. nóvember 2011.

Ákveðið var að fylgja átakinu eftir með frekari vinnustaðaheimsóknum veturinn 2011 til 2012. Í skýrslunni nú er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum þessara heimsókna og til samanburðar birtar sambærilegar niðurstöður átaksins sumarið 2011.

Það er sameiginlegt mat ríkisskattstjóra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að samstarf þessara aðila hafi gagnast þeim öllum og að vel hafi tekist til við alla framkvæmd verkefnisins.

Um helstu lærdóma sem draga má af verkefninu vísast til skýrslunnar sem gefin var út 2. nóvember á síðasta ári. Við það má bæta að niðurstöðurnar nú gefa vísbendingar um að dregið hafi úr svartri vinnu á milli þeirra tveggja tímabila sem verkefnið náði til. Þannig má leiða að því líkur að átakið s.l. sumar hafi skilað ákveðnum árangri í viðleitninni við að draga úr svartri vinnu. Þó ber að varast að draga of víðtækar ályktanir af þessum samanburði, þar sem þættir eins og árstíðarsveiflur og smæð úrtaksins geta haft veruleg áhrif á niðurstöðuna.

Hér má lesa frétt um átakið frá 2. nóvember 2011. (Þessi frétt er fengin frá ASÍ)