Vopnað rán framið á Skrifstofu stéttarfélaganna

Vopnað rán var framið á Skrifstofu stéttarfélaganna í lok vinnudags síðasta föstudag. Ránið náðist á myndband:  http://www.youtube.com/watch?v=2Ld4Df2UBTw&feature=youtu.be Hópur manna ruddist þá inn á skrifstofuna á Húsavík og rændu öllum félagsgjöldum rúmlega tvöþúsund félagsmanna, það er innkomu stéttarfélaganna frá árinu 2003.  Formaður Framsýnar var einn við störf þegar hraustlegir grímuklæddir ræningjar gerðu áhlaup á skrifstofuna. Því fór sem fór enda formaðurinn ekki sá fljótasti í dag. Samkvæmt upplýsingum frá CIA og Interpol náðust ræningjarnir rétt í þessu og eru þeir nú vistaðir í fangageymslum lögreglunnar á Húsavík. Þeir munu hafa verið að telja peninga í Skrúðgarðinum á Húsavík þegar þeir náðust innan um skapstirðar endur í hríðinni. Fjöldi fólks sem var í miðbænum á Húsavík þegar ránið var framið hefur þurft á áfallahjálp að halda eftir ránið enda ekki á hverjum degi sem andfúlir ræningjar eru á ferð í friðsæla bænum við Skjálfanda. Ekki náðist í formann Framsýnar við gerð fréttarinnar en hann er talinn vera í felum í fjárhúskofa við Húsavík. Vonandi er enginn farinn að trúa þessari frétt. Það rétta er að hér að ofan má skoða áhugavert myndband sem Sandra Huld Helgudóttir nemandi við Framhaldsskólann á Húsavík gerði sem lokaverkefni.  Myndbandið var gert fyrir listir og hönnun sem er áfangi við Framhaldsskólann sem Arnhildur Pálmadóttir hefur haft umsjón með í vetur. Formaður Framsýnar var beðinn um að taka þátt í verkefninu sem hann og gerði þrátt fyrir mjög svo takmarkaða leikhæfileika. En gott framtak hjá þeim sem komu að gerð myndbandsins. Ekki er vitað hvenær eða hvar frumsýningarpartíð verður haldið en myndbandið fór í sýningu um helgina.

Þessi mynd náðist þegar ræningjarnir gerðu áhlaup á Skrifstofu stéttarfélaganna síðasta föstudag. Formaður Framsýnar er greinilega í miklum vanda en hann slapp lifandi frá ráninu.