Fundað um málefni SGS á Húsavík

Starfshópur starfsháttanefndar Starfsgreinasambandsins hélt í gærkvöldi kynningafund um framtíðarskipulag SGS. Fundurinn fór fram í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík. Á fundinn voru mættir 25 fulltrúar úr stjórnun Einingar-Iðju og Framsýnar stéttarfélags sem og þingfulltrúar félagana frá síðasta Starfsgreinasambandsins. Stjórn Verkalýðsfélags Þórshafnar boðaði forföll vegna lélegrar færðar.

Á fundinum kynnti Kristján Bragason framkvæmdastjóri tillögur starfshópsins um breytingar á lögum SGS sem og fjölmargar reglugerðir sem eiga að bæta þjónustu og starfsemi sambandsins.  Lagabreytingatillögur starfshópsins snúa m.a. að breytingum á hluterki sambandsins og stjórnkerfi þess. Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar og Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju og SGS voru framkvæmdastjóranum innan handar, enda eiga þeir báðir sæti í starfshópnum. Fjörugar umræður sköpuðust um tillögurnar en almennt var gerður góður rómur að þeim.

Á næstu vikum munu stjórnir aðildafélaga SGS fjalla um tillögurnar og gefst þeim tækifæri á að koma með ábendingar og athugasemdir við tillögurnar fyrir 13. apríl næstkomandi áður en starfshópurinn leggur endanlegar tillögur fyrir framhaldsþing sambandsins sem haldið verður 11. maí 2012.

Aðildarfélög SGS á Norðausturlandi funduðu á Húsavík í gær. Fundað var um málefni og framtíð sambandsins.

Formaður SGS og Einingar-iðju var á staðnum og fór yfir málefni sambandsins með framkvæmdastjóra sambandsins.

Fulltrúar Framsýnar voru einnig á staðnum, Kristbjörg og Torfi hafa í gegnum tíðina haft skoðanir á starfsemi Starfsgreinasambandsins.

Kristján Bragason framkvæmdastjóri SGS gerði grein fyrir tillögum um starfsemi Starfsgreinasambandsins.