Sjómannadeild Framsýnar fundaði í gær með starfsmönnum hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík og var góð mæting á fundinn. Tilefnið var að ræða kjaramál en í dag er ekki til sérkjarasamningur um þeirra kjör. Hvalaskoðun hefur verið mjög vaxandi atvinnugrein á Húsavík og ekki er annað að sjá en að svo verði áfram. Á fundinum komu fram skýr skilaboð til forsvarsmanna Framsýnar um mikilvægi þess að gengið verði frá kjörum og réttindum starfsmanna við hvalaskoðun. Annað væri ólíðandi. Á fundinum var kjörin samninganefnd, jafnframt var samþykkt að óska eftir viðræðum við stjórnendur hvalaskoðunarfyrirtækjanna á næstu dögum með það að markmiði að sérkjarasamningur verði klár þegar hvalaskoðunarferðir hefjast í vor.