Kynningarfundur um íslenska jarðvarmaklasann

Þann 16. febrúar s.l. var haldinn kynningarfundur á samstarfinu um íslenska jarðvarmaklasann á Húsavík í húsnæði Framsýnar – stéttarfélags.  Félagið stóð að fundinum með Ráðgjafafyrirtækinu Gekon. Ráðgjafafyrirtækið hefur stýrt þessu samstarfi frá upphafi og fulltrúar fyrirtækisins þau Rósbjörg Jónsdóttir og Friðfinnur Hermannsson fóru yfir sögu þessa samstarfs.  Frá Mannviti kom Runólfur Maack til að segja frá sinni sýn á þetta samstarf sem einn af þátttakendunum.  Óli Halldórsson frá Þekkingarneti Þingeyinga fór yfir það hvaða augum hann liti þetta samstarf og hvað möguleikar gætu legið í því fyrir Þingeyinga.

Hugmyndin að því að kortleggja íslenska jarðvarmaklasann kviknaði hjá Hákoni Gunnarssyni, stofnanda Gekon, árið 2009 og hann ásamt samstarfskonu sinni og meðeiganda Þóru M. Þorgeirsdóttur tóku heilt ár í það verk.  Þetta verkefni var unnið í samvinnu Institute of Competitiveness við Harvard háskóla í Boston.  Prófessor Michael Porter, sem er höfundur klasafræðanna, og samstarfsmaður hans, dr. Christian Ketels leiddu þá vinnu. 

Hákon hafði fengið Porter til að koma ti Íslands árið 2006 og í tengslum við þá heimsókn gerði hann greiningu á samkeppnishæfni Íslands.  Í þeirri greiningu nefndi Porter jarðvarmann sem eitt af þeim sviðum þar sem Ísland hefði mikla möguleika á heimsvísu.

Þessum greiningarfasa jarðvarmaklasans lauk í nóvember 2010 með ráðstefnu í Háskólabíói þar sem Michael Porter fór yfir kortið af íslenska jarðvarmaklasanum.  Síðan hófst umræða við lykil aðila í greininni um það hvernig ætti að vinna áfram með verkefnið með það að leiðarljósi að auka samkeppnishæfni Íslands.  Fjölmenn vinnustofa helstu sérfræðinga á sviði jarðvarma var haldin í maí 2011 þar sem varpað var fram þeirri spurningu hvernig hægt væri að byggja upp samstarf innan jarðvarmans á grunni þeirra gagna sem búið var að afla. Skilgreind voru 10 verkefni sem snúa að nýsköpun, tækni, menntun og þjálfun, markaðs- og viðskiptasamstarfi, stjórnvöldum og starfsumhverfi, rannsóknum og fjármögnun.

Í júní 2011 sammæltust 20 stofnaðilar um að fara af stað með þessi verkefni og vinna að þeim til ársloka 2012.  Þá yrði staðan tekin og ákvarðanir teknar um framhaldið á grunni þess árangurs sem samstarfið væri að skila.

Staðan í dag er þannig að nú er um 70 aðilar innan samstafsins og eru Norðlendingar og þá f.o.f. Þingeyingar komnir að þessu borði.  Möguleikar í jarðvarma eru líka óvíða meiri en í Þingeyjarsýslum og eðlilegt að Þingeyingar láti að sér kveða á þessum vettvangi. 

Á fundinn mættu um 20 manns og sköpuðust áhugaverðar umræður um möguleika Þingeyinga í þessu samstarfi. Tryggvi Finnsson sagði frá reynslu sinni af samstarfi innan sjávarútvegsins og hvaða árangri sú vinna hefur skilað til þjóðarinnar með fyrirtækjum eins og Marel sem á uppruna sinn m.a. að rekja til Fiskiðjusamlags Húsavíkur.

Hér fyrir neðan er kortið af jarðvarmaklasanum og inn á því fyrirtækin sem taka þátt.  Rauður hringur er utan um þátttakendur á Norðurlandi.