Lífeyrissjóðsmál- boðað verði til fundar þegar í stað

Miklar umræður urðu á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar um skýrslu þriggja manna nefndar sem gerði úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvörðunum og lagalegu umhverfi lífeyrissjóða í aðdraganda efnahagshrunsins á Íslandi í október 2008.

Starf nefndarinnar má rekja til þess að stjórn og varastjórn Landssamtaka lífeyrissjóða samþykktu 24. júní 2010 að óska eftir því við Magnús Pétursson ríkissáttasemjara að hann skipaði þriggja manna nefnd „óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga“ til að fjalla um fjárfestingarstefnu, ákvarðanir og lagaumhverfi sjóðanna fyrir hrunið.

Á fundinum í kvöld voru fundarmenn sammála um mikilvægi þess að málefnaleg umræða fari fram um niðurstöður nefndarinnar. Meðan sumar athugsemdir nefndarinnar þarfnist  frekari skýringa við séu aðrar sem beri að taka alvarlega. Nefndin gerir m.a. athugsemdir við að ekki sé hámarkstími á setu manna í stjórn Stapa sem Framsýn á aðild að. Í því sambandi má geta þess að fulltrúar Framsýnar lögðu fram tillögu þess efnis á síðasta ársfundi sjóðsins sem var felld. 

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti í kvöld að fara þess á leit við stjórn Stapa- lífeyrissjóðs að þegar í stað verði boðað til fulltrúaráðsfundar í sjóðnum þar sem farið verði yfir skýrslu úttektarnefndarinnar sem skipuð var til að skoða málefni lífeyrissjóðanna í aðdraganda bakahrunsins. Þá telur Framsýn mikilvægt að boðað verði til sjóðsfélagafunda í kjölfarið þar sem félagsmönnum aðildarfélaga sjóðsins verði gefið tækifæri til að fá kynningu á stöðu sjóðsins og næstu skrefum varðandi starfsemina út frá athugasemdum úttektarnefndarinnar.  

Þessi mynd er tekin af fulltrúum Framsýnar og Þingiðnar á síðasta ársfundi Stapa sem var haldinn á vormánuðum í Mývatnssveit.