Nýr formaður til starfa

Aðalfundur Deildar skrifstofu- og verslunarfólks innan Framsýnar fór fram á þriðjudaginn. Fundurinn fór vel fram og flutti formaður deildarinnar Snæbjörn Sigurðarson skýrslu stjórnar. Þá gerði formaður félagsins Aðalsteinn Árni grein fyrir hugmyndum félagsins um að kaupa nýjar sjúkra- og orlofsíbúðir í Kópavogi fyrir félagsmenn. Almenn ánægja kom fram á fundinum með starfsemi deildarinnar og fyrirhuguð kaup félagsins á nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Varðandi stjórnarkjör bar það helst til tíðinda að Snæbjörn gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku í deildinni. Í hans stað var kjörin Jóna Matthíasdóttir verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Jóna var áður í stjórn Starfsmannafélags Íslandsbanka og trúnaðarmaður starfsmanna bankans á Húsavík. Jóna er boðin velkomin til starfa sem formaður deildarinnar. Hún mun einnig taka sæti í stjórn Framsýnar á næsta aðalfundi deildarinnar sem áætlaður er í mars. Jóna hefur ekki áður starfað formlega fyrir Framsýn. Á fundinum á þriðjudag þakkaði Aðalsteinn, Snæbirni og Sigríði Birgisdóttir stjórnarmanni fyrir vel unnin störf fyrir deildina en þau gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn deildarinnar. Hér kemur skýrsla stjórnar.

Aðalfundur deildar verslunar- og skrifstofufólks
Haldinn 31.  janúar 2012
Skýrsla um starfsemi 2011-2012

 1. Fundir
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar félagins hafa setið frá síðasta aðalfundi, sem haldinn var 10. mars á síðasta ári, eru sem hér segir:                      

Stjórnarfundir  5
Fundir í sameiginlegri orlofsnefnd stéttarfélaganna  3 

Deild verslunar- og skrifstofufólks varð til þann 1. maí 2008 við sameiningu Verslunarmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis undir nafninu Framsýn- stéttarfélag.  Núverandi formaður deildarinnar frá stofnun hefur verið Snæbjörn Sigurðarson en hann mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu. Frá síðasta aðalfundi hafa fulltrúar deildarinnar sótt ársfund Alþýðusambands Íslands, fulltrúaráðsfund Alþýðusambands Norðurlands og formannafundi LÍV og ASÍ.  Stjórnarmenn hafa einnig sótt aðalfund Stapa lífeyrissjóðs auk námskeiða og annarra funda sem snerta málefni félagsmanna. Deild verslunar- og skrifstofufólks á alltaf eitt öruggt sæti í aðalstjórn Framsýnar- stéttarfélags en formaður deildarinnar er samkvæmt lögum félagsins sjálfskipaður í stjórnina. Snæbjörn Sigurðarson situr fyrir hönd deildarinnar í stjórn Landssambands íslenskra verslunarmanna, í starfsgreinaráði verslunar- og skrifstofugreina auk þess að vera varamaður í umhverfisnefnd Alþýðusambands Íslands. Aðrir fulltrúar deildarinnar sitja að auki í stjórnum og ráðum innan Framsýnar- stéttarfélags. Landssamband íslenskra verslunarmanna hefur að undanförnu unnið að gerð stefnumótunar fyrir sambandið.  Formaður deildarinnar hefur tekið þátt í þeirri vinna auk stjórnarmanna LÍV og formanna félaga og deilda innan landssambandsins. 

2. Félagatal
Fullgildir félagsmenn í deildinni þann 31. desember 2011 voru 217 eða um 11% af félagsmönnum í Framsýn- stéttarfélagi.  Af þeim eru 191 greiðandi og 26 gjaldfrjálsir. Konur voru í miklum meirihluta eða 151 á meðan karlarnir voru 66.  Hlutfall karla hefur þó aukist nokkuð í deildinni á undanförnum árum. 

3. Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu nokkuð frá fyrra ári sem verður að teljast gott í ljósi þess að samdráttur hefur verið í allri atvinnustarfsemi.  Endurskoðaður ársreikningur félagsins verður lagður fram á aðalfundi félagsins sem haldinn verður síðar á árinu. Innistæður Framsýnar eru ávaxtaðar í Íslandslandsbanka og Sparisjóði Suður-Þingeyinga.  Einnig er félagið í viðskiptum við Landsbankann á Húsavík.  Starfsfólk Framsýnar er ávallt vakandi yfir því að skoða aðra möguleika á ávöxtun fjármuna félagsins, m.a. því að fjárfesta í ríkisverðbréfum í gegnum sjóði, s.s. VÍB og Íslensk verðbréf.  Allar ákvarðanir um slíka fjárfestingar verða teknar af stjórn félagsins á hverjum tíma. Vissulega hafa menn haft verulegar áhyggjur af stöðunni og framvindu mála. Stjórn Framsýnar og starfsmenn munu kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni félagsins hér eftir sem hingað til. Skrifstofa stéttarfélaganna var rekin sameiginlega af stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum. Auk þess sem Verkalýðsfélag Þórshafnar er með þjónustusamning við Skrifstofu stéttarfélaganna. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á sl. ári. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Nokkrir launagreiðendur hafa þó trassað þessi skil og eru þannig að brjóta lög og kjarasamninga. Það að skila félagsgjöldum starfsmanna sinna ekki á réttum tíma má jafna við fjárdrátt, því afdregin félagsgjöld eru ekki á neinn hátt eign launagreiðanda og er honum óheimilt að nota þá fjármuni í sínum rekstri. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu fyrirtækja á næstu mánuðum og jafnvel árum vegna efnahagsástandsins. Framsýn mun fylgjast vel með framvindu mála og bregðast við í tíma eftir bestu getu.  Þá mega menn ekki gleyma því að beint samhengi er milli stöðu fyrirtækja og stéttarfélaga. Gangi rekstur fyrirtækja vel skilar það sér í félagsgjöldum til stéttarfélaganna sem gerir þeim kleift að þjónusta félagsmenn og að veita þeim styrki. Gangi rekstur fyrirtækja hins vegar illa þýðir það minnkandi félagsgjöld og veikir þar með stöðu stéttarfélaga. Sem betur fer hefur Framsýn- stéttarfélag, þar áður VHN og VMH verið rekið vel, þannig að við eigum varasjóð sem við komum til með að nýta í þágu félagsmanna meðan við göngum í gegnum erfiða tíma. Markmið félagsins er að skerða ekki þjónustu eða styrki til félagsmanna, það er ef við fáum einhverju ráðið um það. Við vitum t.d. ekki hvað frekari erfiðleikar í efnahagslífinu hafa í för með sér fyrir starfsemi stéttarfélaga. Ástæða er til að færa lof á stjórnendur og starfsmenn Framsýnar fyrir góða fjármálastjórn og þar með öfluga starfsemi sem er með því besta sem gerist meðal almennra stéttarfélaga á Íslandi í dag. Enda er það svo að mikil ásókn er í félagið frá launþegum sem falla ekki undir starfssvið félagsins. Þeir telja hag sínum best borgið með aðild að Framsýn.

 4. Kjara- og samningamál
Skrifað var undir nýja kjarasamninga þann 5. maí á síðasta ári eftir erfiðar samningaviðræður.  Kjarasamningar höfðu þá verið lausir frá því lok nóvember árið 2010.  Samtök atvinnulífsins lögðu mikla áherslu á það sem þeir kalla samræmda launastefnu sem felst í því að gerður sé einn kjarasamningur við alla viðsemjendur á vinnumarkaði með samræmdum launahækkunum. Samningsumboð deildarinnar liggur hjá Landssambandi íslenskra verslunarmanna en formaður deildarinnar situr þar í stjórn, sem jafnframt er samninganefnd sambandsins. Þing sambandsins var haldið í Reykjavík 13.-14. apríl 2010 og sótti formaður þingið fyrir hönd deildarinnar auk þess sem Hafliði Jósteinsson var sérstakur áheyrnarfulltrúi á þinginu.  Á þinginu var kosið í stjórn LÍV og fékk Snæbjörn Sigurðarson þar flest atkvæði.  Stefán Einar Stefánsson formaður VR kjörinn nýr formaður LÍV.

 5. Orlofsmál
Orlofsmál eru mikilvæg í starfi félagsins. Gott samstarf hefur verið milli aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna í orlofsmálum. Sameiginleg orlofsnefnd félaganna vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti í orlofsmálum.  Félagsmönnum bjóðast íbúðir í Reykjavík og á Akureyri, orlofshús, gistiávísanir á Fosshótelum, Hótel Eddu, Hótel Keflavík, Gistiheimili Keflavíkur og á farfuglaheimilum.  Mikil aukning hefur orðið í sölu á Fosshótelávísunum undanfarin ár og hafa félagsmenn verið duglegir að nýta sér þá orlofskosti sem eru í boði. 

6. Fræðslumál
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Alls fengu 54 félagsmenn starfsmenntastyrki á árinu 2011, alls að upphæð kr. 1.313.740,-. Til stendur að leggja fram tillögur að breytingum á Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks sem munu auka réttindi þeirra sem eru í lægri tekjuhópunum en þar hafa þeir tekjuhærri verið með mun betri réttindi hingað til.  Með breytingunum tvöfaldast réttindi þeirra sem eru undir meðallaunum miðað við stöðuna í dag og það felur einnig í sér að réttindaávinnsla þeirra tekjuhærri verður mun hægari.  Með þessu breytingum er komið til móts við tekjulægri hópa verslunarmanna án þess að gengið verði á eignir sjóðsins.  Þessar breytingar eru að stórum hluta tilkomnar vegna vinnu stjórnar deildar verslunar- og skrifstofufólks en deildin hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir því að jafna út réttindi í starfsmenntasjóðnum á milli tekjuhópa.  Betur má þó ef duga skal og verður áfram unnið að því að jafna stöðu félagsmanna innan LÍV óháð tekjum.

7. Fréttabréf og heimasíðan www.framsyn.is
Fréttabréf stéttarfélaganna er mikilvægur þáttur í starfsemi stéttarfélaganna. Fréttabréfinu er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna.  Fréttabréfinu er dreift frítt á öll heimili á félagssvæðinu.  Heimasíða stéttarfélaganna er einnig mikið sótt enda mjög aðgengilegt form fyrir þá sem vilja kynna sér starfsemi félagsins eða réttindi. Nánast daglega má sjá nýjar upplýsingar eða fréttir af starfsemi félagsins á vefnum. Ný heimasíða var tekin í notkun á síðasta ári sem unnin var í samstarfi við Blokkina, en það er nýtt margmiðlunarfyrirtæki sem er með heimilisfestu á Húsavík.  Auk þess eru allir starfsmenn fyrirtækisins Þingeyingar að uppruna.

8. Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 3 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Snæbjörn Sigurðarson hætti störfum hjá skrifstofunni eftir 6 ára starf og er nú verkefnastjóri hjá Norðurþingi.  Orri Freyr Oddsson hefur verið ráðinn í hans stað. Ágúst S. Óskarsson fyrrverandi starfsmaður stéttarfélaganna var í ágúst 2010 ráðinn sem starfsmaður VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum.  VIRK greiðir allan kostnað við starfsmanninn og skrifstofuhald vegna starfseminnar er viðkemur sjóðnum.  Starfsemi sjóðsins hefur verið kynnt meðal fyrirtækja og stofnana á svæðinu. Skrifstofa stéttarfélaganna er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á hana mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Að venju hefur verið ágæt nýting á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.  Endurbætt fundaraðstaða hefur verulega fjölgað fundum og öðrum viðburðum í aðstöðunni. Frá 1. janúar 2010 hefur Framsýn séð um rekstur skrifstofunnar og önnur félög STH og Þingiðn kaupi þess í stað þjónustu af Framsýn. Þetta er bæði gert í sparnaðarskyni og eins til að auðvelda reksturinn.  

9. Lokaorð
Hér hefur verið stiklað á stóru í starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi yfirlit yfir það helsta í starfi félagsins, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu. 

Jóna Matthíasdóttir er nýr formaður Deildar Verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar. Hún hefur ekki áður starfað fyrir félagið en var um árabil í stjórn Starfsmannafélags Íslandsbanka og trúnaðarmaður starfsmanna bankans á Húsavík. Án efa verður góður liðstyrkur í Jónu. Hér er hún ásamt Dómhildi sem var um tíma formaður Verslunarmannafélags Húsavíkur, það er fyrir tíma Framsýnar. Dómhildur er í stjórn Framsýnar.

Fráfarandi formaður var heiðraður fyrir vel unnin störf í þágu félagsmanna.

Fundarmenn skoða gögnin sem voru lögð fram á fundinum. Stjórn Deildarinnar er þannig skipuð auk Jónu formanns, Jónína Hermannsdóttir, Kári Kristjánsson, Birgitta Bjarney Svavarsdóttir og Ásgerður Arnardóttir.