Aðalsteinn Árni Torgari svarar Helga Helgasyni miðbæingi í síðasta Skarpi er varðar samskipti þessara bæjarhluta hér á árum áður. Hér má lesa greinina sem vakið hefur athygli:
Miðbæingar reyna að endurskrifa söguna!
Maður kenndur við Grafarbakka kom sterkt inn á síðasta ári með tilfinningaríkum skrifum í Skarp. Í ágætum greinum rifjaði Helgi Helgason upp bernsku sína á Ásgarðsveginum og skrifaði meðal annars um stórsigra miðbæinga á Torgurum í fótbolta og öðrum útileikjum sem voru algengir á þeim tíma. Að sjálfsögðu verður að virða það við Helga að árin eru farin að færast yfir hann, enda fæddur upp úr miðri síðustu öld. Helgi var alltaf gamall í mínum augum, enda miklu, miklu eldri en sá sem þetta skrifar og auk þess miklu hjólbeinóttari. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að minni hans sé nánast horfið og hann sjái í hillingum fyrir sér stórsigra á Torgurum. Hið rétta er að við Torgarar gerðum í því að taka kappleiki við miðbæinga enda sigur ávalt vís á getulausum, skapstirðum og fótalúnum miðbæingum. Það voru hins vegar mun jafnari leikir þegar við spiluðum við hólara, enda kunnu þeir fótbolta.
Garðar flúði miðbæinn!
Nú ber svo við að sagnfræðingurinn úr Grafarbakka heldur skrifum sínum áfram á nýju ári beint frá Cuxhaven í Þýskalandi. Hann sendir Torgurum nístingskaldar nýárskveðjur í Skarpi, blandar Garðari Svavarssyni landnámsmanni í málið og kveður hann fyrsta miðbæinginn. Við komu sína til Húsavíkur hafi Garðar horft yfir á Rauðatorgið og sagt að þangað væri ekkert að sækja. Hann hafi því orðið sannfærður um að setjast að í miðbænum. Eftir á að hyggja voru þetta mestu og reyndar einu mistökin sem Garðar gerði sem landnámsmaður. Í ítarlegu einkaviðtali í Boðberanum, málgagni Kaupfélags Þingeyinga, gerir hann húsbændum og hjúum grein fyrir þessum alvarlegu mistökum. Hann segir sólina hafa blindað sér sýn þegar hann valdi sér stað til vetrarsetu á Húsavík eftir langa og erfiða siglingu yfir Atlandshafið. Villuráfandi hafi hann valið að setjast að í miðbænum en ekki á Rauðatorginu þar sem hann gerði sér ekki grein fyrir dýrðinni á Torginu. Þegar hann hafi svo yfirgefið plássið ári síðar eftir ömurlega vist í miðbænum, hafi hann litið til baka, (eins og Gunnar á Hlíðarenda nokkru síðar) á leið sinni til skips og séð fallegasta stað á jarðríki, Rauðatorgið. Þrátt fyrir sterkan vilja til að snúa við og setjast að á Torginu, hafi það ekki gengið upp, þar sem hann hafði þegar gengið frá kaupum á farseðli með Víkingaskipi til Svíþjóðar. Á þessum tíma þekktist nefnilega ekki að endurgreiða mönnum farseðla, enda þá engin Neytendasamtök til að verja lánlausa víkinga, utan stéttarfélaga.
Flóttamenn úr miðbænum
Miðað við lýsingu Garðars á veru sinni í miðbænum þarf ekki að koma á óvart að hann hafi yfirgefið landið eins og fjölmargir aðrir miðbæingar sem litu upp til Garðars. Hvar eru knattspyrnuhetjurnar sem kenna sig enn við miðbæinn, þeir Helgi Helga, Ingólfur Koti, Siggi Gunnapalla og Beggi Olgeirs? Þeir fetuðu allir í sjófar Garðars Svavarssonar og yfirgáfu landið. Sá eini sem kom til baka var Jói Sigurjóns, miðlungsmaður í 3. deild í Færeyjum. Og hvað gerði hann? Jú, að sjálfsögðu settist hann að sunnan Búðarár – og hefur ekki komist í lið síðan. Við Torgarar höfum hins vegar okkar menn á sínum stað og þeim verður aldrei haggað þaðan, þá Dóra Bjarna, Skúla Jóns, Ingólf Árna, Dóra Þorvaldar, Stjána Óskars, Sigga Píp og Ingólf Freys. Þeir búa allir á Torginu fagra við Búðará og ekkert fararsnið er á þeim. Væntanlega ætti Garðar Svavarsson fjölmarga afkomendur á Torginu hefði hann tekið sér bólfestu í Kvíabekk þegar hann nam land á Húsavík.
Miðbæingar – heimsborgarar!!
Líkt og veðurguðirnir óskaði Helgi Helgason eftir því að Torgarahátíðinni yrði frestað í sumar um eitt ár, en til stóð að halda hana um miðjan ágúst. Taldi hann miðbæinga þurfa ár til að safna liði sínu saman þar sem það væri of dreift um heimsálfurnar. Að sjálfsögðu var orðið við þessari beiðni enda þurfa menn að vera góðir í landafræði til að finna miðbæingana um víða veröld. Það er því rosalega rangt af piltinum úr Grafarbakka að halda því fram að þeir hafi verið klárir með lið í sumar. Torgarar hafi í kjölfarið vegna hræðslu og niðurgangs vegna rigningar ákveðið að fresta hátíðinni. Ef ég gæti – og væri í aðstöðu til – þá myndi ég snúa mér við í gröfinni til að mótmæla málflutningi sem þessum.
Hæstaréttardómari eða Arnar Björns?
Nýjárskveðja Helga í Skarpi er full af kröfum. Hann vill fá að velja boltann sem spilað verður með og að réttlát dómgæsla verði tryggð. Ef ég þekki félaga Helga rétt, þá vill hann fá að dæma leikinn sjálfur. Miðbæingar mega velja boltann og þá er fullkomlega ljóst hver kemur til með að dæma leikinn. Það verður Torgarinn og uppáhalds tengdasonur miðbæinga, Arnar Björnsson. Þetta er afar sanngjörn miðlunartillaga enda lögð fram af Ríkissáttasemjara. Komi hins vegar til þess að Ingólfur Koti gefi kost á sér í lið miðbæinga er ljóst að Ólafur Börkur hæstaréttardómari verður fenginn til að dæma leikinn, enda Ingólfur Koti einn grófasti og orðljótasti leikmaður sem spilað hefur á Torgaravellinum síðustu sjö aldir eða svo. Þá dugar ekkert annað en hæstaréttardómari í fullum skrúða með tengingu við Húsavík og eyrnahlífar á leikmenn Torgara. Og pilturinn stórbeinótti úr Grafarbakka heldur áfram með kröfurnar, hann leggur til að stórleikur Torgara og miðbæinga fari fram á næstu Mærudögum sem hann kennir við miðbæinn og telur dagana vera þeirra hverfahátíð. Til greina kemur að verða við óskinni en Æðstaráð Torgara mun væntanlega koma saman til fundar á næstu mánuðum til að fara yfir kröfugerð miðbæinga sem er í lengra lagi eins og venjulega. Og það stefnir því allt í að risaslagur þessara stórliða fari fram á Húsavíkurvelli sumarið 2012 og allar helstu sjónvarpsstöðvar heims komi til með að keppast um sýningarréttinn – nema hugsanlega RÚV.
Með nýárs- og vinarkveðju!
Aðalsteinn Á. Baldursson
frá Iðavöllum 2, Húsavík.
Greinarhöfundur er þegar farinn að skipuleggja stórleikinn næsta sumar á Mærudögum.