„Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti“

Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir umræðufundi um kröfur samtakana, stöðu lífeyrissjóðanna og afnám verðtryggingar í Ketilhúsinu á Akureyri í gærkvöldi. Framsögumenn voru Andrea Ólafsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Ragnar Þór Ingólfsson stjórnarmaður í VR. Eftir framsögur þeirra var boðið upp á panel umræður. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson og Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar voru fyrir svörum í panelnum auk  Andreu og Ragnars. Margar fróðlegar og jafnframt sláandi upplýsingar komu fram á fundinum. Ljóst er að Hagsmunasamtök heimilanna leggja mikla áherslu á afnám verðtryggingar og tekið verði upp nýtt lánakerfi á Íslandi. Innan samtakana sem eru grasrótarsamtök eru 7400 félagsmenn. Undanfarið hefur fjölgað mjög í samtökunum. Á fundinum kom fram að 5 manns flytja frá landinu á dag. Í heildina hafa flutt 8000 þúsund frá landinu umfram aðflutta frá árinu 2008. Þá hafa um 50 þúsund lífeyrisþegar tekið út 62 milljarða út af sínum séreignarreikningum.   Þess má geta að Andrea verður gestur á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar í kvöld kl. 19:00. Síðan verður opin fundur í kvöld á Fosshótel Húsavík kl. 20:00. Rétt er að skora á fólk að gefa sér tíma og fjölmenna á fundinn í kvöld á Fosshótel Húsavík sem er á vegum Þekkinganets Þingeyinga. Fundurinn á Fosshótel er auglýstur í Skráni í dag.