Stéttarfélöginn í Þingeyjarsýslum hafa ákveðið að ráða Orra Frey Oddsson sem skrifstofu- og fjármálastjóra Skrifstofu stéttarfélaganna frá og með 1. september n.k.
Orri Freyr er fæddur árið 1979 og ættaður frá Húsavík. Hann hefur síðustu ár búið á Akureyri og starfað sem sérfræðingur á útlánasviði hjá Saga Fjárfestingarbanka hf. Áður starfaði hann sem sérfræðingur í skuldastýringu hjá Landsbanka Íslands og sem sérfræðingur á hagdeild Orkuveitu Reykjavíkur. Þá hefur hann einnig komið að kennslu við Bifröst og Háskóla Íslands þar sem hann kenndi tölfræði, stærðfræði og upplýsingatækni. Auk þessa hefur hann m.a. starfað við bókhald hjá PricewaterhouseCoopers.
Orri Freyr er bæði með BS og MS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands auk kennsluréttinda á grunn- og framhaldsskólastigi frá Háskóla Akureyrar. Þá er hann með próf í verðbréfaviðskiptum. Áður lauk hann stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum á Húsavík af hagfræðibraut.
Alls sóttu 17 einstaklingar um starfið. Umsóknirnar reyndust allar góðar og því varð valið mjög erfitt. Eftir nánari skoðun var það mat Fulltrúaráðs stéttarfélaganna, sem fer með ráðningar á Skrifstofu stéttarfélaganna, að velja Orra Frey Oddsson í starfið úr hópi hæfra umsækjenda.
Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum þakka öllum umsækjendum kærlega fyrir að hafa sýnt starfinu áhuga með því að sækja um það.
Frá undirskrift ráðningarsamningsins. Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar sem er fulltrúi í Fulltrúaráði stéttarfélaganna er hér ásamt Orra Frey nýráðnum starfsmanni Skrifstofu stéttarfélaganna.