Sjálfskipaður verkalýðsforingi

Ekki er nú öll vitleysan eins. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson,  var í útvarpsþætti í morgun á Bylgjunni að ræða yfirlýsingar forseta Alþýðusambandsins um að skora á Íslendinga að sniðganga lambakjöt.

Aðalsteinn hefur gert athugsemdir við þessi ummæli þar sem þau koma mjög illa við félagsmenn innan Alþýðusambandsins og stefna störfum þeirra í hættu. Á félagssvæði Framsýnar starfa um 100 manns við kjötvinnslu.  Í morgun var einnig viðtal við varaforseta Alþýðusambandsins í forföllum forsetans sem kom því ekki við að taka þátt í umræðunum. Því miður voru þau Aðalsteinn og Signý Jóhannesdóttir ekki höfð saman í þættinum heldur var tekið sér viðtal við Signýju á eftir Aðalsteini.

Í þættinum í morgun sagði varaforsetinn að formaður Framsýnar væri sjálfskipaður verkalýðsforingi sem væri að verja fólk í matvælaiðnaði og að taugaveiklunar gæti meðal Bændasamtakana. Enn og aftur er málflutningur forsvarsmanna Alþýðusambandsins fyrir neðan allar hellur. Er furða að sömu aðilar hafi orðið að taka á sig harða gagnrýni og verið jafnframt púaðir niður undir ræðuhöldum á baráttudegi verkafólks 1. maí.

Til útskýringar þá var Aðalsteinn kjörinn formaður Framsýnar – stéttarfélags á aðalfundi félagsins 20. apríl til tveggja ára. Hann er því ekki sjálfskipaður verkalýðsforingi. Eitt af hlutverkum hans sem formanns er að gæta hagsmuna verkafólks í matvælaiðnaði. Ummælum varaforsetans er því vísað til föðurhúsanna. Til viðbótar má geta þess að samkvæmt könnun sem Starfsgreinasamband Íslands lét gera nýtur Framsýn mestrar virðingar allra stéttarfélaga innan sambandsins meðal félagsmanna. Væntanlega vegna þess að félagið hefur verið sterkur málsvari félagsmanna. Þetta ættu talsmenn Alþýðusambandsins að hafa í huga áður en þeir tjá sig með þeim hætti sem Signý Jóhannesdóttir varaforseti Alþýðusambands Íslands gerði í morgun.

Varaforseti ASÍ fór niðrandi orðum um formann Framsýnar í útvarpsþætti í morgun. Sagði hann sjálfskipaðan verkalýðsforingja. Aðalsteinn segir svona ummæli dæma sig sjálf.