Færeyjaferðin mikla

Heimferð sendinefndar Framsýnar sem fór til Færeyja síðastliðinn föstudag hefur enn verið frestað.  Áætlað var að hópurinn kæmi fljúgandi til Íslands í gær en vegna eldgossins í Grímsvötnum var flugleiðin til Íslands orðin ófær.  Því var tekin skyndiákvörðun um að drífa sig um borð í Norrænu sem lagði úr höfn í Færeyjum seinni partinn í gær.  Hópurinn er nú um borð í ferjunni sem dólar úti fyrir Seyðisfirði en getur ekki lagst þar að bryggju vegna veðurs.  Ekki verður hópurinn þó í betri stöðu þegar skipið loksins leggst að landi þar sem ekki er útlit fyrir að hægt verði að fara yfir Fjarðarheiðina frá Seyðisfirði til Egilsstaða fyrr en í fyrsta lagi á morgun.  Auk þess sem óvíst er um færð á Möðrudalsöræfum.  Náttúruöflin hafa því ekki verið hliðholl ferðalöngunum á heimleiðinni.  Að sögn heilsast öllum í hópnum vel og ágætis stemning í mannskapnum þrátt fyrir þessar tafir en flestir eru þó farnir að hlakka verulega til þess að komast heim til sín eftir vægast sagt viðburðaríka ferð.