Er stórt – hagkvæmt og gott?

Á aðalfundi Framsýnar, sem haldinn var á dögunum, fengu formaður, stjórn og starfsmenn þakkir fyrir vel unnin störf. Meðal þess sem þakkaður stöðugur og aðhaldssamur rekstur, styrkur fjarhagur félagsins og mjög góð ávöxtun fjármuna félagsins til fjölda ára. Á ársreikningnum mátti sjá að áfram er mikil ráðdeild í rekstri félagsins og ávöxtun fjármuna félagsins var með afbrigðum góð, líkt og verið hefur undanfarin ár.

                Þennan árangur ber að þakka stjórn, formanni og starfsmönnum, sem ekki hafa látið glepjast af ýmsum gylliboðum fjármálafyrirtækjanna og annarra aðila, sem mörg undanfarin ár hafa boðið þjónustu sína og haft uppi loforð um áhættulitla eignastýringu, byggða á þrautreyndum aðferðum og lúta stjórn velmenntaðra hálaunaðra reyndra starfsmanna þessara fyrirtækja. Þessi leið átti að sjálfsögðu að gefa töluvert stöðugri og betri ávöxtun en sú stefna sem stjórn Framsýnar hefur kosið að fylgja en sú hefur ekki orðið raunin.

                Stjórn þessa frekar litla stéttarfélags skipa m.a. fiskverkafólk, búfræðingur, félagsliði, umsjónarmaður mötuneytis, bensínafgreiðslumaður, gjaldkeri, bormaður, öryrki, tryggingafulltrúi, starfsmaður við umönnun, starfsmaður við ræstingu, stuðningsfulltrúi, tækjamaður, fulltrúi, fiskeldisfræðingur, húsvörður, sölumaður og  verkamaður í kjötiðn. Hópurinn á það sammerkt að vera vanur að afla hóflegra launa og þurfa að sýna ráðdeild og útsjónarsemi til að ná endum saman í heimilisrekstrinum. Hópurinn hefur haft þá stefnu að vera ekki að taka áhættur í rekstri eða ávöxtun og sneiddi þannig frá stórtöpum liðinni ára.

Sú hagfræði heimilisins sem þessi hópur hefur fylgt s.l. ár hefur auðsjáanlega nýst félagsmönnum Framsýnar vel, félagsmenn njóta sífellt  betri þjónustu og réttinda hjá einum af þessum litlu stéttarfélögum sem eru á landsbyggðinni.  

Á aðalfundi Framsýnar var samþykkt í tilefni 100 ára afmælis félagsins að halda veglega upp á afmælið með afmælisveislu  1. maí og gefa hverjum félagsmanni afmælisgjöf upp á kr. 10.000, á þessum merku tímamótum.