Vilja hækka lægstu laun strax

Framsýn, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Verkalýðsfélag Akraness áttu í gær kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins. Að sögn Aðalsteins Árna Baldvinssonar, formanns Framsýnar, fóru viðræður nokkuð vel fram, eftir að hafa byrjað með hvelli.

„Það var hávaði í Karphúsinu í morgun. Við byrjuðum daginn á að takast  á, fundurinn hófst með látum en eftir hádegi var ágætis vinnufriður. En við komum heldur ekkert þangað til að skrifa undir einhvern pappír til að fá vöfflur.“

„Við viljum  knýja á um að 200.000 króna lágmarkslaun komi strax, en ekki árið 2013. Síðan leggjum við áherslu á aðra uppbyggingu en er á samningnum sem var undirritaður í gær. Þar var samið um 12.000 króna greiðslu á taxta og síðan 4,25% á önnur laun. En við viljum lækka þessa prósentutölu og hækka þess í stað upphæðina. Því að þeir sem eiga erfiðast í dag er fólkið á lægstu kjörunum og við viljum stuðla að því að eyða biðröðum hjá hjálparsamtökunum.“

Að sögn Aðalsteins var skilningur á þessum kröfum hjá viðsemjendum. „En það er kannski enginn sérstakur áhugi fyrir því að fara einhverja aðra leið en farin var í gær. Enda kemur það fram í samningunum sem undirritaðir voru í gær á milli SA og ASÍ að það yrði ekkert samið um neitt annað.“

„Samningur við bræðslumenn á Þórshöfn er í höfn og þar verður fylgt flestum atriðum almenna samningsins, sem var undirritaður í gær. Við höfum vilyrði fyrir að fá álíka samning, en viljum nokkrar áherslubreytingar og það verður unnið í því um helgina. Síðan hittumst við aftur á mánudaginn,“ sagði Aðalsteinn í samtali við mbl.is.   (Heimild mbl.is)