Góður aðalfundur hjá Þingiðn

Aðalfundur Þingiðnar fór fram í gær og var mæting  á fundinn mjög góð en um 90 manns eru í félaginu. Staða félagsins er góð og töluverð starfsemi var á vegum þess á síðasta ári. Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 4.787.671,- sem er 4,6% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði námu kr. 937.452,- sem er heldur minna en árið áður en þá varð umtalsverð hækkun milli ára. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 9.050.497,- og eigið fé í árslok 2010 nam kr. 178.097.091,- og hefur aukist um 4,3% að raungildi frá fyrra ári. Árið 2009 var hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 19.724.373,-.  Hér má lesa skýrslu formanns, Jónasar Kristjánssonar.

Skýrsla stjórnar

Fundir
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 6. apríl 2010 voru 34. Þá hefur formaður félagsins  verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s formannafund ASÍ og sambandsstjórnarfund Samiðnar.  Þá kom forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, í heimsókn 1. september og fundaði með stjórnum Framsýnar og Þingiðnar á Sölku.

 Félagatal
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2010 voru 93 talsins sem er svipaður fjöldi milli ára. Karlar voru 91 og konur 2. 

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 4.787.671,- sem er 4,6% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði námu kr. 937.452,- sem er heldur minna en árið áður en þá varð umtalsverð hækkun milli ára. Félagið er eigandi af 25% hlut í orlofsíbúð að Freyjugötu 10a í Reykjavík með Framsýn, stéttarfélagi. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 9.050.497,- og eigið fé í árslok 2010 nam kr. 178.097.091,- og hefur aukist um 4,3% að raungildi frá fyrra ári. Árið 2009 var hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 19.724.373,-. Hann minkaði því verulega milli ára. 

Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Félagsmönnum stóð til boða gisting á Hótel Keflavík, Edduhótelum, Fosshótelum og farfuglaheimilum á síðasta ári og verður svo áfram á komandi sumri. Auk þess geta félagsmenn nú gist hjá Gistiheimili  Keflavíkur á afsláttarkjörum. Gisti félagsmenn á Hótel Keflavík á leið sinni til útlanda er innifalið í verðinu gisting, morgunverður, geymsla á bíl og akstur á flugvöllinn. Það á einnig við um Gistiheimili Keflavíkur. Á síðasta ári dvöldu 605 félagsmenn stéttarfélaganna ásamt fjölskyldum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félaganna sem er aukning milli ára. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félaganna en þess ber að geta að þau niðurgreiða orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Stéttarfélögin hafa áfram til sölu afsláttarmiða í Hvalfjarðargöngin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári spöruðu félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sér töluverða fjármuni með því að kaupa miðana hjá stéttarfélögunum í stað þess að kaupa þá við Hvalfjarðargöngin. Ekki stendur til að bjóða upp á utanlandsferðir í sumar. Hins vegar hefur verið ákveðið að bjóða upp á stutta tveggja daga ferð um Norðausturlandið í lok maí fyrir félagsmenn stéttarfélaganna. Þá er til skoðunar að bjóða félagsmönnum Þingiðnar í afmælisferð austur á Reyðarfjörð í byrjun júní. 

Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári fengu sex félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 276.938,-

Málefni skrifstofunnar
 Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 4 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Þá var Hilmar Valur Gunnarsson ráðinn í sumarafleysingar sumarið  2010. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu sem fjöldi fólks heimsækir daglega og þá kemur Fréttabréf stéttarfélaganna reglulega út fullt af fróðleik og upplýsingum til félagsmanna. Fyrir nokkru var heimasíðan uppfærð sem gerir hana aðgengilegri fyrir félagsmenn og aðra þá sem heimsækja hana. Þá er skrifstofan opin níu tíma á dag sem er lengsti opnunartími hjá stéttarfélögum á Íslandi. Skrifstofa stéttarfélaganna er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á hana mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna og þá hefur notkunin stóraukist varðandi aðra starfsemi eftir að fundaraðstaðan var löguð og er hún nú öll orðin hin glæsilegasta en aðstaðan var tekin formlega í notkun 24. september. Ljóst er að með breytingunum  mun starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum eflast enn þá frekar. Kostnaðaráætlun vegna breytinganna á fundarstöðinni stóðst að mestu. Heildarkostnaður við endurbætur á sal varð kr. 36.014.484,-. Þá var einnig ráðist í lagfæringar á eldhúsinu auk þess sem skrifstofan var máluð. Kostnaður við það verk reyndist vera kr. 5.301.885,-. Heildarkostnaður við breytingarnar varð því kr. 41.316.369,-. Meðan á framkvæmdunum stóð voru aðildarfélögin með starfandi framkvæmdanefnd sem fylgdist með gangi mála og sem tók á þeim vandamálum sem komu upp á framkvæmdatímanum. Aðildarfélögin áttu gott samstarf við arkitektinn, Arnhildi Pálmadóttur og verktakana sem komu að breytingunum. Aðalverktaki var Norðurvík.

 Kjaramál
Kjarasamningar iðnaðarmanna voru lausir 30. nóvember 2010. Síðan þá hafa staðið yfir viðræður milli Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins en Samiðn fer með samningsumboð félagsins. Menn höfðu vænst þess að kjaraviðræðurnar kláruðust í síðustu viku en þá slitnaði óvænt upp úr þeim. Samtök atvinnulífsins skilyrtu gerð skammtímasamnings sem lá á borðinu í karphúsinu því að verkalýðshreyfingin færi með SA í stríð við ríkisstjórnina. Það átti að gerast með sameiginlegri yfirlýsingu um að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á því að þriggja ára samningur náðist ekki. ASÍ og aðildarsamtök lýstu því yfir að þau væru ekki tilbúin til þess enda ríkisstjórnin komið verulega til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar á allra síðustu dögum. Eins og staðan er í dag er því ekkert vitað um framhaldið og hvort samið verður á næstu veikum eða mánuðum, því miður.

 Atvinnumál
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum hefur almennt verið nokkuð gott miðað við ytri aðstæður og lítið um atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna. Framtíðin er hins vegar óljós en vonandi tekst að snúa vörn í sókn í atvinnumálum sem fyrst með stórframkvæmdum á svæðinu.  

Vinnustaðaskírteini
Rétt er að geta þess að 15. ágúst 2010 tók gildi samkomulag milli ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini. Samkomulagið nær til starfsmanna og fyrirtækja í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð sem og rekstri gististaða og veitingahúsa. Virði fyrirtækin ekki samkomulagið eiga þau á hættu að fá háar sektir. Snæbjörn Sigurðarson hefur verið skipaður eftirlitsmaður á félagssvæði Þingiðnar. Til stendur að fara eftirlitsferð með vorinu og athuga hvort fyrirtæki séu að uppfylla lög og reglur um vinnustaðaskírteinin. 

Hátíðarhöldin 1. maí
Að venju stóðu stéttarfélögin fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2010.  Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega og fjöldi fólks lagði leið sína í höllina. Í ár verður hún vegleg að vanda en þess má geta að nú eru liðin 100 ár frá stofnun Verkamannafélags Húsavíkur, nú Framsýnar- stéttarfélags.  Talandi um afmæli þá varð Þingiðn 10 ára í desember. Í tilefni af því stendur til að fara í afmælisferð í byrjun júní eins og komið hefur verið inn á. Við munum ræða ferðina undir sérstökum lið hér á eftir. 

Starfsemi félagsins
Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Leifsson, Sigurður Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson. Félagið stóð fyrir jólaboði í desember með öðrum stéttarfélögum sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Um 300 manns komu í heimsókn. Félagið gaf Styrktarfélagi Heilbrigðisstofnunar  Þingeyinga kr. 100.000,- sem framlag upp í kaup á skoðunartæki en söfnun stendur yfir um þessar mundir vegna kaupa á tækinu sem kostar um 10. milljónir. Félagið gaf Krabbameinsfélagi Suður-Þingeyinga kr. 100.000,- til minningar um Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur varaforseta ASÍ. Félagið samþykkti að kaupa hlutafé í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga fyrir kr. 100.000,-. Það var gert til að styrkja starfsemi Atvinnuþróunarfélagsins til eflingar atvinnulífsins á svæðinu. Skrifstofa stéttarfélaganna samdi við Olís, N1 og ÓB um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Fjölmargir hafa notfært sér kjörin. Til þess að þau séu virk þurfa menn að koma við á skrifstofunni og sækja um sérstök afsláttarkjör.  Félagið ákvað að bjóða félagsmönnum upp á niðurgreidda leikhúsferð í Breiðumýri á sýningu sem  Leikfélag Eflingar stendur fyrir um þessar mundir. 

Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

Eftirfarandi tillögur voru samþykktar á fundinum:

Tillaga A
Löggiltur endurskoðandi félagsins

Tillaga stjórnar er að Björn St. Haraldsson hjá PriceWaterhouseCoopers verði löggiltur       endurskoðandi Þingiðnar fyrir starfsárið 2010.

Tillaga B
Um félagsgjald

Tillaga stjórnar er að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, 0,7% af launum.

Tillaga C
Laun stjórnar

Samþykkt var að laun stjórnar verði 3 tímar á yfirvinnukaupi iðnaðarmanna fyrir setinn fund.

Tillaga D
Afmælisferð félagsins

Tillaga er um að Þingiðn standi fyrir afmælisferð til Reyðarfjarðar laugardaginn 4. júní. Þar verði álver Alcoa skoðað. Félagið greiði fyrir rútu og léttar veitingar í tilefni af afmælinu.

 Þingiðn- Stjórn og nefndir 2010-2012

Aðalstjórn (jafnframt stjórn sjúkra-, orlofs- og vinnudeilusjóðs): 

Jónas Kristjánsson                          Formaður                           Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Vigfús Leifsson                                Varaformaður                    Trésmiðjan Val.
Kristinn Gunnlaugsson                  Ritari                                    Trésmiðjan Rein
Þórður Aðalsteinsson                   Gjaldkeri                             Trésmiðja Rein
Sigurður Hreinsson                        Meðstjórnandi                 Norðurvík ehf.

 Varastjórn:
Gunnólfur Sveinsson                       Bílaleiga Húsavíkur
Eydís Kristjánsdóttir                       Trésmiðjan Rein.
Lárus Björnsson                               Vinnuvélar Reynis
Daníel Jónsson (Krauni)                  Grímur ehf. 

Trúnaðarmannaráð:
Sigurjón Sigurðsson                       Norðurvík ehf.
Ólafur Karlsson                              Fjallasýn hf. 
Kormákur Jónsson                         Norðurpóll ehf.
Kristján G. Þorsteinsson                Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Stefán Sveinbjörnsson                   Grímur ehf.
Magnús Hermannson                   Vinnueftirlit ríkisins 

Varatrúnaðarmannaráð:
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson Norðurpóll ehf.
Kristján Gíslason                             Norðlenska
Erlingur S. Bergvinsson                 Frumherji hf.
Daníel A. Jónsson                           Grímur ehf.

Skoðunarmenn ársreikninga:                        Kjörstjórn:

Jón Friðrik Einarsson                                        Skarphéðinn Jakobsson
Magnús Hermannsson                                     Magnús Hermannsson 

Varamaður:                                                      Varamenn:
Björn Líndal                                                       Jónas Gestsson
                                                                            Kristján Gíslason 

Kjörnefnd:                                                         1. maí nefnd
Jón Friðrik Einarsson                                        Arnþór Haukur Birgisson
Jónmundur Aðalsteinsson
Sigmar P. Mikaelsson 

Löggiltur endurskoðandi:
Björn St. Haraldsson

Ungir iðnaðarmenn voru áberandi á aðalfundinum sem er afar ánægjulegt.

Þingiðn er mikið karlaveldi enda aðeins tvær konur í félaginu.

Það eru alltaf fjörugar og skemmtilegar umræður á aðalfundum Þingiðnar.