Eyfirðingar óánægðir með að fá ekki inngöngu í Framsýn

Heimasíðan hefur flutt fréttir af því að töluvert er um að verkafólk utan félagssvæðis Framsýnar óski eftir inngöngu í Framsýn, ekki síst úr Eyjafirði. Ekki er alltaf hægt að verða við þessum óskum þar sem í gildi er ákveðnar reglur meðal stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands um félagsaðild. Nýverið skrifuðu nokkrir Eyfirðingar Alþýðusambandinu bréf þar sem þeir báru við frjálsri félagsaðild og því töldu þeir sig vera í fullum rétti til að fá inngöngu í Framsýn og segja bless við það stéttarfélag sem þeim er gert að greiða til. Í bréfi sem heimasíðan hefur undir höndum frá lögmanni ASÍ til hópsins kemur fram að þeim sé ekki heimilt að vera félagsmenn í Framsýn vegna laga og reglna sem gilda um kjarasamninga og félagssvæði stéttarfélaga. Bréfritar eru mjög óánægðir með niðurstöðu Alþýðusambandsins og ætla sér að skoða málið nánar. Framsýn er ekki neinni annarri stöðu en að virða gildandi lög, þrátt fyrir að það sé ömurlegt að geta ekki tekið inn nýja félagsmenn sem það vilja vegna reglna þar um.    Hins vegar eru allir þeir sem búa utan félagsvæðisins og hafa val um í hvaða stéttarfélag þeir vilja greiða velkomnir í Framsýn. Það á við um nokkra hópa launafólks.