Atvinnuástandið viðunandi

Stjórn Þingiðnar fundaði á mánudaginn. Samþykkt var að boða til aðalfundar þriðjudaginn 19. apríl í fundarsal félagsins kl. 20:00. Þá var farið yfir niðurstöður úr rekstri Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir árið 2010 og rekstraráætlun fyrir árið 2011. Menn voru ánægðir með reksturinn enda var hann á áætlun.

Farið var yfir stöðu kjaraviðræðna Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins. Viðræðurnar virðast vera nánast líflausar sem er mikið áhyggjuefni fyrir iðnaðarmenn sem hafa verið samningslausir í tæpa fjóra mánuði. Margir góðir orlofskostir verða í boði í sumar fyrir félagsmenn auk þess sem hátíðarhöldin 1. maí verða með glæsilegra móti. Ákveðið var að stefna að félagsferð austur á land í vor og var starfsmönnum félagsins falið að undirbúa ferðina. Ráðningarbréf endurskoðanda félagsins var tekið til umræðu og afgreiðslu auk þess sem samþykkt var að styrkja Heilbrigðisstofnun Þingeyinga um kr. 100.000,- vegna kaupa á speglunartæki. Þá voru stjórnarmenn sammála um að atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum á svæðinu væri viðunandi um þessar mundir. Ástandið væri þó ótryggt og lítið sem ekkert um stór verkefni.

Stjórnin fer yfir reksturinn ásamt Snæbirni Sigurðarsyni starfsmanni félagsins.