Lög Starfsmannafélags Húsavíkur
Reglugerð Starfsmenntunarsjóðs Starfsmannafélags Húsavíkur
Lög Starfsmannafélags Húsavíkur
1.gr.
Félagið heitir Starfsmannafélag Húsavíkur (skammstafað S.T.H.). Heimili þess og varnarþing er á Húsavík.
2.gr.
Félagið er stéttar- og hagsmunafélag starfsmanna ríkis og sveitarfélaga á félagssvæðinu, sem nær yfir sveitarfélög í Þingeyjarsýslum. Einnig starfsmanna sjálfseignarstofnana, sem eru að meirihluta í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og vinna í almannaþágu og taka laun eftir kjarasamningum félagsins. Tilgangur félagsins er m.a.:
a) Að fara með umboð félagsins við gerð kjarasamninga samkvæmt lögum og reglugerðum um kjarasamninga.
b) Að gæta hagsmuna félaga sinna launalega, félagslega og faglega, t.d. um starfskjör, eftirlaun og önnur réttindi sem og skyldur.
c) Að vinna að bættum samhug félaga sinna með aukinni fræðslu og menningarstarfsemi, svo og kynningu þeirra og samhjálp eftir því sem tök eru á.
d) Að skapa bætta félagslega aðstöðu og m.a. starfrækja orlofsheimili. Félagið er óháð stjórnmálaflokkum.
e) Að stuðla að samvinnu opinberra starfsmanna og samtaka launafólks
3.gr.
Rétt til inngöngu í félagið eiga þeir starfsmenn, sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
a) Þeir sem eru ráðnir starfsmenn Norðurþings eða stofnana, sem stjórnað er af Bæjarstjórn Norðurþings eða nefndum, sem Bæjarstjórn skipar að meirihluta enda séu þeir ráðnir af Bæjarstjórn eða stjórnum þessara stofnana.
b) Starfsmenn sjálfseignarstofnana, sem starfa í almannaþágu samkvæmt lögum eða fyrirmælum ríkisins eða sveitarfélaga á félagssvæðinu, enda semji félagið um launakjör þeirra.
Öllum þeim sem hafa gegnt starfi í þrjá mánuði eða lengur og taka reglulega mánaðarlaun hjá fyrrgreindum aðilum er heimilt að ganga í Starfsmannafélag Húsavíkur.
4.gr.
Félagsmaður, sem verður atvinnulaus skal halda þeim félagsréttindum sem hann hafði áunnið sér og er á færi félagsins að veita meðan hann er atvinnulaus. Stjórn félagsins er heimilt að fella niður félagsgjald þeirra sem eru atvinnulausir.
Félagsmaður, sem hverfur frá vinnu tímabundið og tekur ekki annað launað starf skal halda áunnum félagsréttindum sínum í allt að 2 ár. Félagsréttindin skulu þó háð því að hann standi skil á lágmarksgjaldi ár hvert, skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni.
Félagsmaður, sem lætur af starfi á aldursmörkum eða vegna veikinda og hefur unnið sér rétt til eftirlauna eða örorkubóta, heldur öllum félagsréttindum, en skal vera gjaldfrjáls.
Félagar geta óskað þess að stjórn félagsins hafi afskipti af ráðningarkjörum, starfskjörum, eftirlaunum, brottvikningu og öðru því, sem máli skiptir í samræmi við tilgang félagsins.
5.gr.
Allir félagar eru skyldir til að hlýða lögum og lögmætum samþykktum félagsins.
Þyki sannað að félagsmaður hafi framið alvarlegt brot á lögum þessum eða vísvitandi valdið félaginu tjóni, getur aðalfundur vikið honum úr félaginu, en til þess þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.
6.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 3 aðalmönnum og 2 varamönnum.
Skulu þeir kosnir, annað hvert ár, til tveggja ára í senn, óhlutbundinni kosningu, á aðalfundi félagsins. Formaður, ritari og einn varamaður skal kosinn annað árið og hitt árið gjaldkeri og einn varamaður.
Aðalfundur kýs tvo endurskoðendur félagsreikninga og einn til vara til eins árs.
7.gr.
Formaður kallar saman félagsfundi og stjórnarfundi og stjórnar þeim og er hann forsvarsmaður félagsins. Þó er formanni heimilt að skipa annan fundarstjóra. Jafnframt veitir hann móttöku á erindum og bréfum til félagsins og annast samskipti fyrir þess hönd.
Ritari heldur gerðabók og færir í hana ágrip af því, sem gerist á stjórnar- og félagsfundum. Hann heldur einnig spjaldskrá yfir alla félagsmenn.
Gjaldkeri varðveitir alla fjármuni félagsins. Allt handbært fé skal geymt í banka eða á annan hátt, sem stjórnin ákveður.
Gjaldkeri hefur eftirlit með innheimtu á félagsgjöldum og greiðir alla reikninga eftir að formaður hefur áritað þá.
Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða ársreikninga á aðalfundi.
Heimilt er að fela öðrum aðila að annast skrifstofuhald fyrir félagið, þ.m.t. að sinna ofangreindum verkefnum gjaldkera, samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma.
8.gr.
Á hverjum vinnustað, þar sem starfa fimm eða fleiri félagsmenn, skal í októbermánuði ár hvert fara fram val trúnaðarmanns, er sé síðan tilkynnt félagsstjórn. Velja má annan til vara.
Berist eigi tilkynning fyrir 10. nóvember skal félagsstjórn skipa trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það félögum á vinnustaðnum.
Félagsstjórn setur trúnaðarmönnum starfsreglur.
9.gr.
Heimilt er stjórninni að leita skriflegrar atkvæðagreiðslu allra félagsmanna um þau mál sem þykja mikilsvarðandi fyrir félagið.
10.gr.
Boða skal til félagsfundar svo oft sem stjórnin telur þörf á.
Þá geta félagsmenn, skriflega, krafist þess að fundur verði haldinn í félaginu og er stjórninni skylt að taka það til greina, ef 1/5 hluti félagsmanna krefst þess og tilgreinir fundarefni. Er þá formanni skylt að boða til fundar innan 7 daga frá því er honum barst krafan.
11.gr.
Félagsfundir skulu boðaðir bréflega eða með auglýsingum á vinnustöðum eða í útvarpi, með minnst eins sólarhrings fyrirvara og aðalfundir með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Jafnan skal tilgreina fundarefni í fundarboði.
Allir félagsfundir eru lögmætir, ef boðaðir hafa verið samkvæmt fyrirmælum þessarar greinar.
Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi skal boða til framhaldsaðalfundar með sama hætti.
12.gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Árstillög félagsmanna og greiðslufyrirkomulag þeirra skal ákveða á aðalfundi.
13.gr.
Aðalfundur er æðsta vald félagsins og skal hann haldinn ár hvert. Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:
1 ) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár.
2 ) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár.
3 ) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna.
4 ) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund.
5 ) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein.
6 ) Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein.
7 ) Kosning fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar.
8 ) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
9 ) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd.
10 ) Önnur mál, sem fram koma á fundinum.
14.gr.
Fundum skal stjórnað eftir venjulegum fundarsköpum. Einfaldur meirihluti ræður útslitum mála nema við lagabreytingar þarf 3/5 hluta greiddra atkvæða fundarmanna til þess að breyting sé löglega samþykkt.
15.gr.
Félagið má ekki leysa upp nema með samþykkt 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi félagsins enda hafi þess verið getið í fundarboði að fyrir lægi tillaga um félagsslit.
Verði félagið leyst upp, ber aðalfundi að ráðstafa eignum þess. Einnig að tryggja varðveislu á skjölum þess og gerðarbókum.
16.gr.
Með samþykkt þessara laga falla úr gildi lög S.T.H. frá 19. apríl 1994.
Þannig samþykkt á aðalfundi 25. nóvember 2011.
——————————————————————
Reglugerð fyrir Starfsmenntunarsjóð Starfsmannafélags Húsavíkur
1. grein – Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Starfsmenntasjóður Starfsmannafélags Húsavíkur og starfar hann með skipulagi og markmiði sem segir í reglum þessum. Sjóðurinn er eign Starfsmannafélags Húsavíkur. Heimili sjóðsins og varnarþing er á Húsavík.
2. grein – Markmið sjóðsins
Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn í Starfsmannafélagi Húsavíkur til náms og starfsmenntunar, sem gerir þá hæfari til að sinna störfum sínum og undirbúa sig til að takast á við örar breytingar í störfum og á vinnumarkaði.
Til að ná markmiðum sínum mun sjóðurinn:
– styrkja nám og námskeið félagsmanna sem tengist starfi þeirra
– styrkja önnur námskeið sem tengjast tómstundum félagsmanna
– styrkja nám og námskeið á vegum félagsins um starfs- og félagstengd málefni
– með samstarfi við launagreiðendur, önnur stéttarfélög og fræðslustofnanir
3. grein – Tekjur sjóðsins, reikningsskil og ávöxtun
Tekjur sjóðsins eru:
a) Samningsbundin iðgjöld launagreiðenda skv. kjarasamningum.
b) Vaxtatekjur.
c) Námskeiðsgjöld.
d) Aðrar tekjur.
Bókhald sjóðsins skal fært sem sérstök deild í bókhaldi Starfsmannafélags Húsavíkur og skulu öll gögn er varða fjárhag sjóðsins vera aðgengileg fyrir stjórn. Endurskoðendur reikninga sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur reikninga félagsins. Ársreikningur sjóðsins skal staðfestur af aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur. Laust fé skal að jafnaði ávaxtað í banka eða sparisjóði, eða á annan tryggilegan og viðurkenndan hátt, þannig að það njóti ávallt sem bestrar ávöxtunar. Heimilt er stjórninni að lána það um skemmri tíma til annarra verkefna á vegum félagsins, enda komi þá til samþykktar stjórnar sjóðsins og félagsfundar.
4. grein – Stjórn sjóðsins
Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum og tveim til vara. Tveir aðalmenn og einn varamaður skulu kosnir af aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur ár hvert og einn aðalmaður og einn varamaður kosnir af bæjarstjórn Norðurþings til fjögurra ára.
Stjórn skiptir sjálf með sér verkum.
Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til að stjórnarsamþykkt sé lögleg þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði. Stjórn tekur ákvarðanir um fræðslustyrki úr sjóðnum og greiðslu annars hefðbundins rekstrarkostnaðar. Allar meiriháttar ákvarðanir sem kunna að hafa veruleg áhrif á fjárhag sjóðsins skulu hljóta staðfestingu félagsfundar Starfsmannafélags Húsavíkur.
Skrifstofa Starfsmannafélags Húsavíkur annast daglegan rekstur sjóðsins, bókhald og greiðslur fræðslustyrkja í samræmi við ákvarðanir stjórnar sjóðsins.
5. grein – Fræðslustyrkir
Stjórn sjóðsins veitir fræðslustyrki í samræmi við 2. grein um markmið sjóðsins að teknu tilliti til fjárhags sjóðsins á hverjum tíma. Rétt til styrks hafa þeir sem verið hafa félagsmenn í Starfsmannafélagi Húsavíkur í sex mánuði og eru virkir félagsmenn við lok náms/námskeiðs. Sjóðsstjórn er heimilt að gera samning um gagnkvæma réttindaávinnslu við önnur stéttarfélög og starfsmenntunarsjóði.
Námskeiðsstyrkir eru skv. eftirfarandi:
a) Styrkir til félagsmanna vegna starfstengdra námskeiða:
Námskeiðsgjald/námskostnaður er greiddur að fullu.
Útlagður ferða- og gistikostnaður er greiddur að fullu.
Hámarkstyrkur kr. 140.000,- á ári.
b) Styrkir til félagsmanna vegna annarra námskeiða sem tengjast tómstundum þeirra:
Námskeiðsgjald/námskostnaður er greiddur að hálfu.
Hámarksstyrkur kr. 40.000,- á ári.
c) Styrkir til félagsmanna vegna tungumálanámskeiða erlendis:
Námskeiðsgjald/námskostnaður greiddur að fullu.
Útlagður ferða- og gistikostnaður greiddur að fullu.
Hámarksstyrkur kr. 450.000,- á hverjum þremur árum.
d) Styrkir til Starfsmannafélags Húsavíkur vegna starfs- eða félagstengdra námskeiða:
Heimilt er að styrkja félagið að fullu vegna námskostnaðar.
e) Styrkir vegna samstarfs við launagreiðendur, önnur stéttarfélög eða fræðslustofnanir:
Heimilt er að taka þátt í kostnaði á móti launagreiðanda, öðrum stéttarfélögum, fræðslustofnunum o.fl. samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins hverju sinni sem umsóknir berast.
f) Styrkur til háskólamenntaðra félagsmanna:
Stjórn sjóðsins getur ákvarðað háskólamenntuðum félagsmönnum hærri styrki, vegna þátttöku á starfstengdum námskeiðum, sem nemur allt að áttföldu iðgjaldi launagreiðanda sbr. grein 3.a. vegna þeirra s.l. 12 mánuði. Heildarstyrkur félagsmanns verður þó aldrei hærri en kr. 195.000,- á ári.
Sjóðnum er ekki heimilt að taka þátt í tekjutapi félagsmanna vegna námskeiða eða námsdvalar, fæðiskostnaði eða kostnaði sem launagreiðanda greiðir í samræmi við ákvæði kjarasamninga.
Skv. grein 10.3.1.1 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Samflots f.h. STH skal greiða 0,22% af heildarlaunum starfsmönnum í starfsmenntunarsjóð. Framlag vegna starfsmanna ríkisins er því mun lægra en annarra starfsmanna sem eru félagar í STH. Því er réttur þeirra félagsmanna sem starfa hjá ríkisstofnunum til fræðslustyrkja 30% af fullum styrk skv. 5. grein.
Félagar sem vinna hluta úr ári fá styrk sem nemur að hámarki fimmföldu félagsgjaldi síðustu 12 mánuði.
Um hver áramót hefur stjórn sjóðsins heimild til að uppreikna styrkupphæðir í samræmi við verðlags og/eða launaþróun.
6. grein – Umsóknir og afgreiðsla
Þeim sem æskja styrks úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn þar að lútandi á sérstökum eyðublöðum sem fást á skrifstofu félagsins. Í umsókn skal koma fram lýsing á því námi eða námskeiði, sem styrkurinn skal renna til, áætlun um kostnað, hvenær fyrirhugað er að stunda námið, svo og aðra þær upplýsingar er sjóðstjórn kann að telja nauðsynlegar. Á grundvelli þessara upplýsinga tekur sjóðstjórn ákvörðun um, hvort og hve háan styrk viðkomandi umsækjandi skuli fá.
Þegar umsækjandi hefur lokið námskeiði er styrkur greiddur út gegn framvísun reikninga fyrir samþykktum kostnaði. Reikningar skulu númeraðir og innihalda upplýsingar um námskeið og nafn og kennitölu námskeiðshaldara.
7. grein – Breytingar á reglugerð
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur, og ná þær því aðeins samþykki, að 2/3 hlutar greiddra atkvæða séu þeim fylgjandi.
Reglugerðarbreytingar skulu háðar samþykki bæjarstjórnar Norðurþings. Reglugerð þessi tekur gildi 1. janúar 2012, fellur þá samhliða úr gildi eldri reglugerð.
8. grein – Slit sjóðsins
Sjóðinn má ekki leysa upp nema með samþykkt 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur enda hafi þess verið getið í fundarboði að fyrir lægi tillaga um sjóðsslit.
Verði sjóðurinn leystur upp, ber aðalfundi að ráðstafa eignum hans. Einnig að tryggja varðveislu á skjölum hans og gerðarbókum.
Reglugerðin þannig samþykkt á aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur 25 /11 2011.
Staðfest af bæjarstjórn Norðurþings 20 / 12 2011.