Reglugerð
fyrir Fræðslusjóð Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum

1. grein: Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Fræðslusjóður Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum og er eign þess félags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.
2. grein: Tilgangur
Tilgangur sjóðsins er alhliða fræðslustarfsemi með sérstaka áherslu á styrki til félagsmanna sem stunda nám í greininni eða sækja starfstengd námskeið. Þá skal heimilt að verja ákveðnum fjármunum til tómstundastyrkja í samræmi við starfsreglur sem sjóðurinn settur sér og samþykktar eru á aðalfundi félagsins.
3. grein: Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:
a) Samningsbundin iðgjöld atvinnurekenda á hverjum tíma.
b) 0,3% af innheimtum félagsgjöldum. Viðmiðunargjald 1% félagsgjald.
c) Viðbótarframlög frá félagssjóði, sem ákveðin eru hverju sinni.
d) Vaxtatekjur.
e) Námskeiðsgjöld.
f) Aðrar tekjur.
4. grein: Stjórn sjóðsins
Þrír félagsmenn skipa stjórn sjóðsins, og skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Kosnir skulu tveir varamenn á sama hátt. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Þó skal heimilt að tilnefna starfsmenn félagsins í stjórn sjóðsins enda liggi fyrir samþykki aðalfundar þess efnis. Formaður félagsins kallar stjórnina saman til fyrsta fundar.
5. grein: Verksvið stjórnar
Verksmið stjórnar er að úthluta styrkjum til félagsmanna í samræmi við starfsreglur sjóðsins. Þá er stjórninni heimilt að skipuleggja námskeið eða aðra fræðslu sem gagnast getur félagsmönnum á hverjum tíma. Reiknað er með að úthlutun úr sjóðnum fari fram einu sinni í mánuði.
6. grein: Ágreiningur
Verði ágreiningur um fjárveitingar úr sjóðnum, getur hver einstakur stjórnarmaður vísað málinu til félagsstjórnar, sem þá fellir endanlegan úrskurð. Það sama á við um ef félagsmaður er ósáttur við afgreiðslu stjórnar sjóðsins. Í þeim tilvikum getur hann vísað málinu til félagsstjórnar til afgreiðslu.
7. grein: Ávöxtun sjóðsins
Laust fé fræðslusjóðs skal að jafnaði ávaxtað í banka eða sparisjóði, eða á annan tryggilegan og viðurkenndan hátt, þannig að það njóti ávallt sem bestrar ávöxtunar. Heimilt er stjórninni að lána það um skemmri tíma til annarra verkefna á vegum félagsins, enda komi þá til samþykktar félagsstjórnar og er félagssjóður þá ábyrgur fyrir endurgreiðslu, þegar fræðslusjóður þarf á fé sínu að halda.
Endurskoðendur reikninga sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur reikninga félagsins.
8. grein: Breytingar á reglugerð
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi, og ná þær því aðeins samþykki, að 2/3 hlutar atkvæða séu þeim fylgjandi.
Reglugerðin þannig samþykkt á aðalfundi Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum 16. maí 2018.

Starfsreglur
Fræðslusjóðs Þingiðnar

1. Félagsmaður sem unnið hefur fullt starf í a.m.k. 6 mánuði af síðustu 24 og greitt til félagsins á þeim tíma á rétt á stuðningi til starfsnáms. Greitt er hlutfallslega fyrir fólk í hlutastörfum.

2. Við ákvörðun upphæðar er miðað við greidd félagsgjöld síðustu 12 mánaða. Félagsgjald af lágmarkslaunum iðnaðarmanna í 100% starfi eða meira gefur fulla styrkupphæð.

3. Fylla þarf út umsóknareyðublað og skila ásamt reikningi/kvittun til skrifstofu félagsins. Umsókn þarf að berast viðkomandi stéttarfélagi innan 12 mánaða frá dagsetningu reiknings.

4. Sá sem hverfa þarf tímabundið af vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila tryggingagjaldi af launum hans, heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði þeim rétti til starfsmenntunarstyrks sem hann hafði áunnið sér hjá sjóðnum. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum, frá því hann hvarf af vinnumarkaði, fellur réttur hans að fullu niður.

5. Foreldrar í fæðingar- eða foreldraorlofi geta nýtt sér áunnin rétt skv. 1. gr. ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld á meðan á orlofi stendur.

6. Félagsmenn í atvinnuleit halda áunnum rétti sínum eins og hann var við starfslok ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld af atvinnuleysisbótum.

Hve mikið er greitt ?
Greitt er að hámarki kr. 130.000.- á ári m.v. 3. mars 2020. Miða skal við almanaksárið. Aldrei er þó greitt meira en sem nemur 75% af námskostnaði.

Frístunda/tómstundanámskeið
Fræðslusjóðurinn veitir styrki vegna tómstundanámskeiða ýmiskonar og er endurgreiðsla vegna þeirra 75% af kostnaði en aldrei hærri en kr. 30.000.- á ári og dregst jafnframt af heildarupphæð einstaklingsstyrks þess árs.

Uppsafnaður réttur; aukinn styrkur til náms
Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu þrjá ár, eiga rétt á styrk allt að kr. 390.000.- fyrir eitt samfellt nám/námskeið skv. reglum sjóðsins. Ferðakostnaður vegna náms getur að hámarki orðið kr. 100.000.- sem hluti af kostnaði náms/námskeiðs í þessu tilviki (Þessi styrkur verður ekki virkur fyrr en eftir 16. maí 2021).

Styrkir til kaupa á hjálpartækjum fyrir lestrar-og ritstuðning.
Hægt er að sækja um allt að 75% styrk vegna kaupa á hjálpartækjum ætluðum til stuðnings við lestur og skrift. Heildarstyrkur miðast við hámarksupphæð skv. almennum reglum sjóðsins eða kr. 100.000.-

Styrkir vegna íslenskunáms
Félagsmenn sem hafa annað móðurmál en íslensku geta sótt um allt að 75% styrk vegna íslenskunáms eftir mánaðar félagsaðild að Þingiðn.

Réttur ellilífeyrisþega
Ellilífeyrisþegar innan Þingiðnar halda rétti sínum til einstaklingsstyrkja í allt að 24 mánuði frá því þeir hætta að vinna. Þetta er í samhengi við réttindi þeirra sem eru á tímabundinni örorku og annað sbr. 4. lið í starfsreglunum.

Breyting á starfsreglum
Reglur þessar geta tekið breytingum samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins hverju sinni.

Þannig samþykkt á aðalfundi Þingiðnar 16. maí 2018.

Áttin

Áttin sem greiðir leið fyrirtækja að umsóknum að starfsmenntasjóðum og fræðslustofnunum er sameiginlegt verkefni atvinnurekenda og launafólks á almennum vinnumarkaði.

Fræðslumiðstöð bílgreina

Fræðslumiðstöð bílgreina hf. býður margvísleg námskeið fyrir starfsmenn og fyrirtæki í bílgreinum. Þau eru ætluð bifreiðasmiðum, bifvélavirkjum, bílamálurum, móttökumönnum, afgreiðslumönnum í varahlutaverslunum og verkstjórum. Námskeiðin eru ýmist haldin í samvinnu við fyrirtæki eða kynnt sérstaklega á haust- og vorönn.  Þau hafa farið fram þar sem næg þátttaka fæst og fullnægjandi aðstaða er fyrir hendi.

Upplýsingar um námskeiðin fást hjá Fræðslumiðstöð bílgreina í síma 586 10 50. Einnig er hægt að senda tölvupóst til asgeir@fmb.is eða snorri@fmb.is og biðja um nánari upplýsingar.

Fræðsluráð málmiðnaðarins

Fræðsluráð málmiðnaðarins er sameiginlegur vettvangur Samiðnar og Samtaka iðnaðarins varðandi menntun, fræðslu og kynningu á málmiðngreinum og veiðarfæragerð.
Þau verkefni sem FM sinnir eru:
· Fagnámskeið fyrir málmiðnaðarmenn og veiðarfærasmiði.
· Rekstrar- og stjórnunarnámskeið fyrir sömu hópa.
· Tölvunámskeið.
· Útgáfa fréttabréfs um starfsemina ásamt áætlun um námskeiðahald.
· Umsýsla sveinsprófa og námssamninga fyrir málmiðngreinar og veiðarfæragerð ásamt ýmsum fleirum.
· Námsskrárgerð.

Á heimasíðu Fræðsluráðsins, www.metal.is er hægt að nálgast allar upplýsingar um starfsemi þess ásamt fréttum af því sem er að gerast.

Menntafélag byggingariðnaðarins

Meginmarkmið MFB:

Að efla samkeppnishæfni og framleiðni fyrirtækja á sviði bygginga- og mannvirkjagerðar.
· Að efla hæfni starfsmanna í byggingariðnaði og treysta stöðu þeirra á vinnumarkaði.
· Til að ná þessum markmiðum veitir MFB félagsmönnum sínum fjölþætta þjónusta á fræðslu- og upplýsingasviði.
· Stofnaðilar Menntafélag byggingariðnaðarins eru:
Samiðn – samtök starfsmanna í byggingariðnaði.
Samtök iðnaðrins – samtök atvinnurekenda í byggingariðnaði.

Námskeiðahald

Félagið býður félagsmönnum sínum upp á fagnámskeið iðngreina –

Stjórnunar- og rekstrarnámskeið og tölvunámskeið.
Það tók að sér að halda löggildinganámskeið fyrir umhverfisráðuneytið sem verktaki.

Byggiðn
Menntafélagið gefur út tvö blöð á ári í janúar og september. Í blöðunum er kynnt námskeiðahald. Blaðið er dreift ókeypis til allra félagsmanna.

Námssamningar og sveinspróf
Menntafélagið er umsýsluaðili fyrir Menntamálaráðuneytið vegna gerð námssamninga milli meista og nema í byggingariðnaði.  Það sér um námssamningagerð fyrir eftirtaldar iðngreinar: Húsasmíði, húsgagnasmíði, málaraiðn, pípulagnaiðn, múraraiðn, dúk- og veggfóðraraiðn og bólstrun.  Menntafélagið hefur umsjón með sveinsprófum í áðurnefndum iðngreinum í samvinnu við sveinsprófsnefndir iðngreina.

Námskrágerð
Menntafélagið vinnur að námskrágerð fyrir grunnmenntun í byggingariðnaði fyrir menntamálaráðuneytið í samvinnu við starfsgreinaráð bygginga- og mannvirkjagreina.

Heimasíða Menntafélags byggingariðnaðarins
Á heimasíðu félagsins www.mfb.is er hægt að nálgast helstu upplýsingar um starfsemi þess ásamt fréttum og nýjum verkefnum sem félagið er að vinna hverju sinni. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast í síma 552-1040.