Geggjuð félagsferð í boði- Flatey á Skjálfanda

Stéttarfélögin standa fyrir félagsferð til Flateyjar á Skjálfanda í sumar. Farið verður laugardaginn 14. ágúst og er um að ræða dagsferð fyrir félagsmenn og gesti. Farið verður frá Húsavík kl. 13:00 og komið aftur heim um kvöldið.  Eins og kunnugt er þá er Flatey stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikið fuglalíf og góð fiskimið eru allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn staður fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942 bjuggu 120 manns í Flatey en síðan 1967 hefur engin verið með fasta búsetu í eynni.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að upplifa paradís Skjálfandaflóa í allri sinni dýrð, með einstakri náttúru og ríku fuglalífi.  Boðið verður upp á skoðunarferð um eyjuna undir leiðsögn auk þess sem grillað verður fyrir gestina í boði stéttarfélaganna.

Hægt verður að bóka sig í ferðina á Skrifstofu stéttarfélaganna til 28. júlí. Verðið er kr. 8.000,- per einstakling sem greiðist við skráningu eða í síðasta lagi 15. júlí. Innifalið er sjóferðin, grill og skoðunarferð um eyjuna. Lágmarksþátttaka í ferðina er 25 manns. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.